Seinni daginn byrjuðum við aftur í hverfinu okkar, í þetta sinn með cupcake og mjólk í hjólhýsinu á horninu í morgunmat. Við röltum síðan meira um hverfið og skoðuðum litlu búðirnar. Við keyrðum svo í háskólahverfið og fórum í uppáhalds búðina okkar Buffalo Exchange sem er í nokkrum stórborgum hér í Ameríku. Við reyndum síðan að rölta um miðbæinn en það var erfitt í steikjandi hitanum þannig að næst á dagskrá var að fá sér pulsu og drykk hjá Frank en bæði matur og drykkur slógu í gegn hjá okkur.
Við héldum göngu okkar áfram og eftir að Eyþór hafði óvart fengið sér Chili frostpinna hjá götusalanum sem talaði enga ensku duttum við inn á kaffihús þar sem við fengum besta ískaffið í ferðinni þar sem eigandinn býr til sína eina mjólk sem er svolítið sæt..sem þýðir að ég gat loksins fengið mér kaffi ÁN sýróps!! ;) Þar hittum við ungan dreng sem var nýbúinn að útskrifast úr high school sem vissi helling um stjórnmálaástandið á Íslandi og að Ísland hafi nýlega dregið ESB umsókn sína til baka (sem er í sjálfu sér mjög áhugavert þar sem eiginlega enginn hérna úti veit hvað European Union er..).
Við leituðum að næsta áfangastað með loftkælingu og ákváðum að skoða þinghús Texas fylkis sem er staðsett í miðbæ Austin. Þinghúsið er mjög flott að innan og stútfullt af (frekar sorglegri) sögu. Meðal þingmanna eru þó ekki bara redneck Texas lið eins og margir ímynda sér en við hittum eflaust mesta töffaraþingmanninn, Wendy Davis sem tveimur dögum áður hafði staðið í 11 klst og talað gegn lagafrumvarpi án þess að borða né fara á klósettið. Allt til þess að vernda réttindi kvenna í Texas (nánari lýsing á því hvernig við enduðum á því að hitta þingkonuna hér fyrir neðan..)
Þinghúsið í Texas.
Mjög fallegt inni í byggingunni.
Gaurarnir sem tóku þessa mynd sögðu okkur að annar þeirra væri í pólitík og hefði þess vegna fengið að fara og hitta stjórnmálakonuna Wendy Davis sem hafði nýlega verið í fréttum vegna hetjulegrar framkomu í þinginu þegar Repúblikanar voru að reyna að koma lögum í gegn sem myndu hefta aðgang kvenna að fóstureyðingum. Við hugsuðum með okkur hvað það væri gaman að hitta hana líka..
Og það gerðum við :) Við leituðum af skrifstofunni hennar sem var vel falin og aðstoðarmaður hennar kom fram og byrjaði að spjalla við okkur. Hann sagði þingkonuna vera í viðtali við People Magazine þannig að við gætum ekki hitt hana. Svo þegar við vorum á leiðinni út kemur Wendy út úr skrifstofunni og kallar í okkur og við áttum létt spjall.
Ég gat ekki komist hjá því að leiða hugann að öllum þeim fáránlegu lögum sem hafa komist í gegnum þetta þing en Texas fylki hefur verið talið verulega afturhaldsamt.
Þar sem við sitjum hér á síðasta degi ferðalagsins og hugsum til baka þá var Austin eiginlega skemmtilegasta borgin sem við heimsóttum. Fólkið var fáránlega næs, ég er eiginlega enn að jafna mig á því hvað ALLIR (meirasegja hipsterarnir en Austin er talin vera ein mesta hipsteraborgin í Ameríku) voru rosalega vinalegir og til í að spjalla. Borgin er líka frekar lítil og alls ekki túristaleg. Við vorum líka mjög heppin með matinn sem við fengum í Austin, allar máltíðir voru ótrúlega góðar og staðirnir skemmtilegir.
Semsagt, við mælum með því að heimsækja Austin!