Wednesday, May 30, 2012

HádegisstundÉg sakna virkilega notalegu hádegisstunda okkar Eyþórs sem við áttum í Vín.
Við vorum oftast heima bæði í hádeginu og dunduðum okkur í eldhúsinu saman og útbjuggum fínasta hádegismat undir rólegum austurrískum útvarpstónum.
Já þetta var ljúfur tími...en þar sem við erum bæði í fullri vinnu hér á landi og meirasegja í sitthvoru bæjarfélaginu þá hafa þessar hádegisstundir okkar takmarkast við eina og eina hádegisstund um helgar.


Síðustu helgi prófaði ég nýja uppskrift af brauði en ég á það til að vera dugleg að baka brauð. Ég elska að gera auðveldar gerlausar brauðuppskriftir sem taka enga stund að hræra í og bragðast oftar betur en rúnstykki úr næsta bakaríi. Ég á oftast allt í uppskriftirnar og svo líður mér vel þegar ég veit nákvæmlega hvað er í því sem ég borða.


Uppskriftina af brauðinu fékk á fallega matarblogginu hjá Evu Laufey Kjaran og ég mæli hiklaust með þessari auðveldu og fljótlegu uppskrift.

Monday, May 28, 2012

Súkkulaðibita blondínur


Blondies eru svipaðar og brownies nema ekki með súkkulaðigrunni en ég setti þó súkkulaðibita í þessar blondínur. Þær eru vel í hollari kantinum - ekkert smjör, ekkert hveiti og ekki það mikill sykur. Þær eru með hnetusmjöri sem gerir virkilega góðan keim og svo setti ég valhnetur útí líka.
En aðalinnihaldsefnið er..... kjúklingabaunir!
Já, það er hægt að gera mjög gómsætar kökur úr baunum. 
Mæli með að þið prófið þar sem flestir sem hafa smakkað þessar hafa verið mjög ánægðir, sérstaklega samstarfskonur mínar sem hafa ekkert á móti því að ég komi með hollustugóðgæti af og til í vinnuna :)

Súkkulaðibita blondínur
uppskrift frá Chocolate Covered Katie

1 dós kjúklingabaunir
3/4 tsk lyftiduft 
1/8 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1 dl sykur (á að vera 1 og 3/4dl - það má alveg ef þið viljið ekki minnka sykurmagnið)
2 tsk vanilludropar
0,6 dl hnetusmjör
0,6 dl hafrar
slatti af súkkulaðibitum/söxuðu suðusúkkulaði (ég setti um 1,5 dl)
1/2 dl saxaðar valhnetur (ekki í of litla bita samt)
 
Byrjið á því að hreinsa kjúklingabaunirnar vel (gott að setja í sigti og láta renna vel af vatni á þær). 
Því næst setjið allt nema súkkulaðið í matvinnsluvél og blandið þangað til nokkuð mjúkt og slétt.
Setjið súkkulaðibitana útí og hrærið með sleif.
Ég setti deigið síðan í ofnotaða sílíkonmöffinsformið mitt og fékk 11 blondínur útúr því.
Það er líka hægt að setja í kassalaga form en deigið er t.d. of lítið fyrir skúffukökuformið sem ég á - flestar uppskriftirnar hennar Katie eru frekar litlar þannig að ég myndi passa að hafa formið í minna lagi svo að kökurnar verði ekki þunnar. Held þær séu bestar þykkar og djúsí..

Bakið við 180° í um 30 mín.

Thursday, May 24, 2012

Sumir sunnudagar..


...eru einfaldlega indælli en aðrir. 
Ég hef alltaf elskað sunnudaga (lesist: ekki þynnkusunnudaga) þar sem það eru oftast einu algjöru frídagarnir, maður er mun oftar með einhver plön á laugardegi. 
Þessi sunnudagur byrjaði á bakarísferð með Eyþóri og Páli Orra áður en við brunuðum í Bláa lónið í þvílíkri blíðu og glampandi sól. Eftir það var ferðinni haldið í Kjósina þar sem við fengum vöfflur í bústaðnum hjá tengdó og við spiluðum sumarleiki í góða veðrinu, þrátt fyrir að snjórinn hafi ennþá verið í fjöllunum. 
Við kíktum á Stígvélalistaverkið í Innri Njarðvík þar sem leikskólabörn hafa sett gömlu stígvélin sín í grjótið hjá fjörunni.
Um kvöldið þegar litla bróður var skutlað heim stóðumst við ekki mátið og héldum áfram út á Garðskaga þar sem sólin var að setjast. 

Monday, May 21, 2012

Eggjahvítumúffur

Eggjahvítumúffur eru algjör snilld - eiginlega ommiletta "on the go"Ég er farin að gera eggjahvítumúffur ansi oft þar sem Eyþóri finnst gott að grípa með sér morgunmat en ég borða þær eiginlega alltaf sem millimál, mér finnst mjög fínt að fá mér svona 2 plús ávöxt seinnipart dags þegar ég er svöng. Þær eru fljótgerðar, rosalega hollar og sniðugar fyrir þá sem nenna ekki að elda sér ommilettu alltaf þegar á að nota eggjahvíturnar. Ég nota oftast uppskriftina sem ég fann í fyrra á Heilsupressunni hjá Svövu Rán (sem ég finn ekki akkúrat núna og nenni ekki að leita - ég seivaði hana í tölvuna fyrir löngu). Það er fínasta grunnuppskrift, fáránlega auðveld og tekur enga stund að hræra í þetta.

Eggjahvítumúffur
8 eggjahvítur
200 g kotasæla
1 msk kókoshnetuhveiti eða 2 msk annað hveiti (ég nota kókos af því að ég á það og að það þarf minna af því en þær verða örugglega alveg eins með venjulegu hveiti/spelt)
1 tsk lyftiduft
hvaða krydd sem er


Þessu er öllu hrært saman í skál og ATHUGIÐ að "deigið" er rosalega þunnt! Maður trúir varla að þetta eigi að vera svona en hafið engar áhyggjur :)


Múffurnar eru svo bakaðar í ofni við 180-200° (hversu dökkar þið viljið hafa þær) í amk. 30 mín en ég hef þær bara þangað til þær eru orðnar vel dökkar, það tekur oftast aðeins lengri tíma en hálftíma.

Ég nota alltaf sílíkon möffinsform, það er örugglega erfitt að nota pappaform, mig grunar að deigið myndi leka útum allt...


Svona er hægt að hafa þær einfaldar en ég set alltaf eitthvað gums í.


Síðast gerði ég 2x uppskrift, í annan skammtinn setti ég:
- Skinku
- Mexíkó-ost
-Paprikukrydd
-Oreganó
- Salt&pipar


Í hinn skammtinn setti ég:
- Tómata
- Parmesan ost (í deigið og líka ofan á í lokin)
- Basil


Þær geymast ótrúlega lengi í nestisboxi inní ísskáp, ég set þær svo örskamma stund í örbylgjuna en það er óþarfi, þær eru fínar líka kaldar. 
(Veit ekki hvort þær haldist góðar ef þær eru frystar - ég hef aldrei þurft þess því við klárum þær eiginlega alltaf á rúmri viku)

Wednesday, May 16, 2012

Hopp

Gyðingahopp í Vínarborg
Klettahopp í Eilífsdal
...og kúrekahattaklettahopp líka
Trampólínshopp í Eilífsdal
Róluhopp í Eldborg á Snæfellsnesi
Fagnaðarblakhopp á blakvellinum í bakgarði Paddys
Eyðibýlahopp í Grímsnesi
Kvöldhopp á Reykjanesi
Bryggjuhopp hjá Baldri í Stykkishólmi
Hamingjuhopp í Barcelona
..og fleiri trampólínshopp í Eilífsdal.

Ég hef mjög gaman að hoppmyndum þannig að ég ákvað að safna þeim saman og leyfa ykkur að njóta líka :)
Ennþá skemmtilegra er þegar þær misheppnast en ég fann að vísu ekki margar þannig í myndasafninu mínu, ég er eflaust búin að henda þeim.. En ég mun geyma allar misheppnaðar framtíðar hoppmyndir þar sem ég var í kasti yfir nokkrum myndum sem ég fann af okkur vinkonunum í gönguferðinni afdrifaríku í sumarbústaðaferðinni góðu í Húsafelli fyrir tveimur árum... og læt eina fylgja með.

Monday, May 14, 2012

Random gamlar&nýjar símamyndir

 "Occupy Iceland" tjölduðu á Austurvelli sl. haust
 Þetta blasti við mér þegar ég var að rölta úr vinnunni - hélt fyrst að þetta væri lifandi hrútur! Haha..
 Ég sat í dómnefnd í Söngkeppni Samsuð sem er söngkeppni á milli félagsstöðvanna á Suðurnesjum. Við völdum í 1. og 2. sætið sem urðu svo í sömu sætum í keppninni á landsvísu :)
Þessi mynd var tekin á leiðinni í HÍ á flottasta snjódegi vetrarins.
 Eyþór og Páll Orri að taka upp tónlistarmyndbandið sitt einhvers staðar rétt hjá Höfnum.
 Þetta er útsýnið úr Háskólanum á Akureyri en þangað fór ég í mars þar sem vinnan var að halda námskeið  fyrir Akureyringa.
 Fallegi afmælisblómvöndurinn frá Eyþóri.
Salurinn þar sem vinnufundurinn í London var haldinn - mjög fallegur!

Var að setja einhverjar myndir í tölvuna síðan í vetur - afsakið myndgæðin, síminn minn er ekki með góða myndavél en mér finnst alltaf gaman að skoða "daglegar" myndir á bloggum. Langar í instagram!
Kv. ein sem er ekki á leiðinni að fá sér iphone...

Friday, May 11, 2012

Ansi skemmtilegt far til KeflavíkurÉg þurfti að redda mér fari heim til Keflavíkur eftir boð í Ráðhúsinu í gær þar sem rútan átti ekki að koma fyrr en eftir 2 klst. Ég var ekki að nenna að hanga í bænum og heyrði fyrir tilviljun í Hildi systur sem var akkúrat á leið í flugtíma. Eftir 20 mínútna göngu á Reykjavíkurflugvöll beið mín þar lítil rella sem flaug með mig til Keflavíkur á korteri. Þetta var fyrsta flugið mitt í svona lítilli vél og ég var fyrsti farþegi litlu systur.... ooog þetta var algjör snilld! Ógeðslega gaman og get ég ekki beðið eftir að fara aftur og þá lengri túr, þá tek ég pottþétt með mér myndavélina (ég smellti nokkrum á litla venjulega Nokia símann minn sem ég verð að segja að komu bara ágætlega út, hef aldrei sett þær í tölvuna því ég hélt að það væru svo léleg gæði en þetta er bara alveg ágætt :)


...hvað ég elska skyndiákvarðanir, þær gefa lífinu svo sannarlega lit!