Wednesday, March 27, 2013

Bainbridge Island

Við keyrðum yfir til Bainbridge Island í vikunni, það er svo gaman að skoða nýja bæi og komast í nýtt umhverfi. Bærinn er þó voða svipaður Poulsbo, með fallegt útsýni, heillandi bryggju og krúttlegan miðbæ, en þar búa um 20þús og í Poulsbo um 9þús manns. Þegar ég gúgglaði staðinn til þess að finna íbúafjöldann, komst ég að því að fyrir einhverjum árum var bærinn í 2. sæti yfir bestu staði til að búa á í Bandaríkjunum (samkvæmt CNN Money). Ég veit nú ekki alveg með það...en okkur Eyþóri finnst vestur Washington fylki vera mjög heillandi svæði, náttúran er svo ólík því sem við erum vön heima á Íslandi. Frá Bainbridge Island er stutt að fara í borgina en ferjan til Seattle fer einmitt þaðan og tekur ferðin rúman hálftíma.
Stuttu eftir þetta kom þjónninn og sagði að það væri nú ekki alveg í lagi að hafa Stóra Dan inni á veitingastað.
Þannig að hann var bara bundinn við hurðahúninn á útidyrahurð staðarins og allir sem vildu komast út og inn þurftu að labba framhjá honum.. Ég veit um eina vinkonu mína sem myndi ekki láta sér detta í hug að labba þarna framhjá, hvað þá inná staðinn (þú veist hver þú ert.. ;)
Það eru endalaust af cherry blossom trjám hérna.
Ein gömul í rauðu frá toppi til táar á aðalgötu bæjarins, langaði að mynda hana betur :)

Monday, March 25, 2013

Roman Baths

Ég er að nýta þessa síðustu viku áður en skólinn byrjar til þess að sortera myndirnar okkar, flokka eftir árum og setja á harðan disk. Ég rakst á þessar myndir frá Rómversku böðunum í Bath þar sem við bjuggum síðasta haust og ég varð nú að setja myndir hingað inn af aðal túristastað borgarinnar (og meirasegja í öllu Suð-vestur Englandi). Þetta var yndislegur dagur í lok nóvember og það var nýbúið að setja upp jólamarkaðinn beint fyrir neðan böðin. Ég man vel eftir yndislega ilmnum af ristuðu hnetunum og jólalögunum sem bárust okkur yfir steinvegginn. 

Ég nenni ekki að fara yfir sögu staðarins, áhugasamir geta lesið hér. En í stuttu máli þá er þetta eini staðurinn í Bretlandi þar sem heitt vatn kemur upp úr jörðinni. 
Hér fyrir ofan sést í þökin á kofunum á jólamarkaðnum.
Í boði var að hlusta á sögu staðarins í gegnum þetta tól. Eins og sést var fólk að nýta sér það.

Thursday, March 21, 2013

St. Patricks day

Jim "host-pabbi" er af írskum ættum, amma hans og afi voru írskir innflytjendur og því heldur hann mikið upp á St. Patricks day. Það voru 15 manns í mat hjá okkur um kvöldið og við dunduðum okkur við matseld allan daginn. Jim dró fram þrjá geisladiska sem innihéldu írsk þjóðlög og var hann með þá stillta á hæsta leveli og diskarnir rúlluðu allan daginn og allt kvöldið. Við vorum öll komin með meira en nóg af þessari tónlist í lok kvöldsins og Aladene ("host-mamma") fullvissaði mig um að ég myndi aldrei framar sjá þessa diska þar sem aðeins er hlustað á þá á St. Patricks. 

Tvö af börnum Jim og börnin þeirra komu í mat og í matinn var "Irish corn beef and cabbage" og í eftirrétt var eplakaka með rjómaostakremi og svo kom Allie, kona barnabarns Jims með eftirrétt frá Perú. Ég var að sjálfsögðu mjög spennt að smakka enda elska ég að prófa nýja deserta, og hvað þá frá framandi löndum. 


Það er engin sósa borin fram með kjötinu, aðeins horseradish (piparrót).
Kokkurinn að skera kjötið í grænu Guinnes peysunni sinni sem hann dregur einnig fram einu sinni á ári..
Húsið er skreytt í tilefni dagsins.
Jim og barnabörnin hans og systkinin, Jessica og Paul.
Þessar kökur frá Perú heita Alfajores og eru himneskar! Ég hefði átt að mynda þær betur þar sem það er ótrúlega góð karamella í miðjunni. Það voru nokkrar eftir í lok kvölds og ég sagði Allie að hún þyrfti ekkert að vera að burðast með restina heim..

Við ætlum loksins í borgina á morgun, við erum búin að eiga rólega daga hérna í Poulsbo undanfarið þar sem Eyþór er á haus í verkefnaskilum í skólanum. Annars er planið um helgina að horfa á mikinn körfubolta (hér er alltaf körfubolti í einu sjónvarpinu og pólitík í hinu). March Madness er að byrja en það er úrslitakeppni háskólakörfuboltans. Lið úr okkar fylki (Gonzaga) er einmitt í efsta sæti þannig að það verður spennandi að fylgjast með.

Wednesday, March 20, 2013

Nifty Fiftys

Við duttum inná ekta 50's diner í dagsferð okkar til Port Townsend og Eyþór tók ekki í mál að fara neitt annað eftir að við kíktum inn um gluggann á þessum stað (hann er mikill aðdáandi svona ekta gamaldags amerískra veitingastaða). Það var mjög góð ákvörðun þar sem maturinn var ótrúlega góður og stemningin akkúrat eins og hún átti að vera.. meira segja glymskrattinn virkaði ;)
Ég er yfirleitt ekkert það spennt fyrir borgurum en ég er enn að hugsa um þennan..
 Besti súkkulaðisjeik sem ég hef smakkað.. jafn góður og Chocolate frosty eins og við fengum alltaf á Wendy's uppi á velli eftir körfuboltaleiki þar sem við spiluðum á móti high school liðinu.

Monday, March 18, 2013

Port Townsend

Okkur Eyþór langaði að fara í stutta dagsferð fyrst við höfum aðgang að bíl hérna í Poulsbo og Jim&Aladene mældu með því að fara yfir í Jefferson County og skoða skemmtilegan smábæ, Port Townsend. Það eru um 9000 manns sem búa í bænum en miðbærinn gefur til kynna að þarna búi mun fleiri þar sem bærinn átti upphaflega að vera aðal hafnarborgin áður en Seattle var byggð. Mikið er um "háhýsi" (svona miðað við að þetta er smábær..) í miðbænum og svo eru húsin í bænum ansi skrautleg. Við rúntuðum soldið um bæinn og hvert einasta hús var svo einstakt, undarleg í laginu og málað í alls konar litum. 

Við keyrðum lengri leiðina að bænum og keyrðum því í gegnum nokkra ennþá minni bæi, einn ríkra manna bæ, Port Ludlow og svo einn algjöran hillbilly bæ, Port Hadlock sem hafði þó sinn sjarma eins og þið sjáið á næstu myndum. 
Í Port Ludlow eiga allir bát..
Það fyrsta sem við sáum af Port Hadlock.
 Hinu megin við götuna var "The Big Pig Thrift Store." Hún var ansi skrautleg.
 "Burger's landing." Það var aðeins hægt að sitja úti og þennan dag var kuldaskræfunni mér frekar kalt enda búin að vera með kvef, þaning að við ákváðum að leita að betri hamborgarastað. Sem við fundum svo í Port Townsend (sýni ykkur myndir frá þeim skemmtilega stað seinna).
Í Port Townsend eru fullt af second hand búðum.
Svona 5 mín eftir að Eyþór tók þessa mynd, labbaði maðurinn á myndinni upp að okkur inni á veitingastaðnum sem við vorum á og gaf okkur nafnspjaldið sitt og vildi endilega fá myndina senda. Þau hjónin voru víst að byrja með einhvers konar heimsendingarfyrirtæki.
 Skemmtilegur stíll, pínulítið öðruvísi en norski Poulsbo.. :)


 Ferjan að sigla í gegn.
Konan í Castaways var voða hress og sagði dóttur sína hafa gert fyrirlestur um Ísland í high school, hún  sagðist nú ekki vilja pósa en konan til hægri á myndinni sannfærði hana um að þetta myndi nú ekkert birtast neins staðar... úps :)