Monday, January 30, 2012

Hveitilausar súkkulaðibitasmákökur


Ég skal viðurkenna að þetta eru ekki fallegustu smákökur sem ég maður hefur séð.. né þær bestu.
Eeen fyrir þá sem eru að reyna að forðast hveiti og mikinn sykur þá eru þetta fínustu smákökur. Eiginlega bara mjög fínar, sérstaklega í millimál. Þær eru akkurat eins og ég vil hafa smákökur, ekki of harðar og ekki of mjúkar. Ég ímynda mér að hægt sé að gera þær enn betri með að setja jafnvel saxaðar möndlur eða hnetur.. Uppskriftin er ótrúlega einföld og allt ferlið tekur svona 20 mín! Og bökunartíminn er meirasegja innifalinn. 
En það er eitt.. þið verðið að eiga matvinnsluvél/mixer eða eitthvað slíkt til að gera þessar.

Hveitilausar súkkulaðibitasmákökur
(uppskrift fengin hjá Chocholate Covered Katie)

3,75 dl hafrar
1/2 tsk matarsódi
dass af salti
4 msk púðursykur
2-3 msk brætt smjör (örugglega hægt að skipta út fyrir olíu/kókosolíu)
4 msk mjólk (eða soya/rísmjólk)
slatti af súkkulaðibitum

Setjið fyrstu 4 hráefnin í matvinnsluvél og blandið vel. Bætið síðan smjörinu og mjólkinni út í með sleikju og skellið síðan ágætri gommu af súkkulaðibitum útí.
Bakið í um 10-12 mín við 180°.

Sunday, January 29, 2012

Ljúfur laugardagurSíðasti laugardagur var heldur betur góður.
Dagurinn byrjaði á Laugaveginum með brunch á Glætunni bókakaffi og svo tók við laugarvegströlt með tengdó. 
Síðan bættist restin af fjölskyldunni við og leiðinni heitið í Keiluhöllina þar sem ég skíttapaði.
Kvöldinu eyddi ég svo með elsku bestu vinkonu minni sem var að útskrifast úr HR og fleiri góðum vinkonum.

Rosalega á ég eftir að sakna þessara daga þegar ég flyt út í haust, en við Eyþór höfum verið dugleg að fylla helgarnar af fjölskyldu - og vinastundum þar sem þær verða fáar næstu (allavega) tvö árin..

Thursday, January 26, 2012

Snjódagur og bjargvættirnir

Í dag er í annað skiptið á ævinni sem ég fæ að vera heima vegna "snow day". 
Þegar ég var í high school í Washington fylki fengum við einn frídag vegna um eins cm snjókomu. Í dag kemst ég ekki til Reykjavíkur í vinnuna þar sem snjólagið er um 50 cm (sjá t.d. hér). Fyrst ég þurfti ekki að skunda útá rútústoppistöðina þá eldaði ég eggjahræru með pulsum í morgunmat handa okkur Eyþóri.

Við hjálpuðum svo nágrönnum okkar að losa bílinn sinn og hann fór í vinnuna en ég mun sennilega bara sitja svona í allan dag:


Útsýnið mitt er svona:


Og þessi er mættur á bílastæði blokkarinnar við hliðina.


Annars eru tveir bjargvættir sem hafa komið mér í gegnum þennan vetur. 
Sá fyrsti er grjónapoki, en honum hendi ég í örbylgjuofninn í 2 mínútur um leið og ég kem inn úr kuldanum og skelli honum á köldu táslurnar mínar eða á bakið og axlirnar. Algjör snilld fyrir svona kuldaskræfu eins og mig!

Hins vegar eru það elsku stígvélin mín sem mér er farið að þykja virkilega vænt um. Ég get vaðið hvaða skafla sem er og verð aldrei blaut. Svo eru þau frekar nett miðað við stígvél og alls ekkert þung eins og flest stígvél. 

Fyrrverandi eigandi þeirra, gömul austurrísk kona, hefur hugsað ósköp vel um þau og fylgdu þau eiginlega með íbúðinni sem ég leigði úti í Vín, en konan (sem hafði látist skömmu áður) skildi þau eftir og ég fékk að eiga þau. 
Hér er svo mynd af mér í stígvélunum í íbúðinni í Vín.. voða sátt :)

Monday, January 23, 2012

Hollara rúsínubrauð
Sunnudagsbaksturinn innihélt þetta rúsínubrauð og hveitilausar súkkulaðibitasmákökur. Ég mætti svo með það í vinnuna í dag ásamt hummus og áleggi (ostaskerinn fékk meirasegja að fljóta með þar sem við eigum engan hér í vinnunni). Ein af tveimur óléttu samstarsfkonum mínum var að hætta í dag í bili þar sem barnið fer bráðum að láta sjá sig og það var notalegt að sitja saman í hádeginu og gæða okkur á brauðinu. Ein sagði meirasegja "þú veist ekki hvað það er mikið hrós að mér finnist þetta brauð gott" og svo fræddi hún mig um að hún vill helst bara franskbrauð og vill oftast ekki sjá heilhveiti. 

Það tók enga stund að vippa í þetta brauð, en ég baka aðeins þannig brauð: Einföld, aðeins hollari og alltaf án gers. Enginn sykur, engin olía eða smjör, þannig vil ég hafa þau. Og helst með fullt af fræjum!

Rúsínubrauð
-uppskriftin er aðlöguð frá ýmsum uppskriftum

5 dl heilhveiti
1 dl haframjöl
1/2 dl semsamfræ
1/2 dl ristuð sólblómafræ (mér finnst sólblómafræ svo miklu betri þegar það er aðeins búið að steikja þau á pönnu en það þarf að sjálfsögðu ekki)
4 msk kókosmjöl (ég geri það sama og við sólblómafræin)
1-2 tsk kanill
1 og 1/2 tsk lyftiduft
2-3 lúkur rúsínur (magnið fer bara eftir smekk)
5 dl AB-mjólk
1 stappaður banani

Þurrefnunum blandað vel saman með sleif. Bananinn stappaður í annarri skál og AB mjólkinni blandað saman við. Blautefnunum síðan hellt í þurrefnaskálina og blandað saman. Rúsínurnar svo settar í lokin.

Þetta fer svo inn í ofn á 180° í um 45 mín. Ég notaði hringlaga sílíkonform, bara af því að sílíkonform eru svo ótrúlega þægileg til notkunar, ég átti ekki tvö brauðform og deigið var eiginlega of mikið fyrir eitt lítið einnota brauðform sem maður fær útí búð.

Friday, January 20, 2012

SveitaskírnLítill og yndislegur strákur fékk nafn í sveitasælunni á Kolstöðum sl.ágúst (jeje ég veit, ekki beint að blogga um stað og stund en það eru bara svo margar fallegar myndir sem ég á í tölvunni og hef ekkert gert við). Stóri bróðir boraði bara í nefið á meðan allir biðu spenntir eftir að Dagur Úlfar fengi gusuna yfir sig. Hann virtist ekkert of sáttur með það, nema hann hafi verið að mótmæla síðkjólnum og hattinum fína..
Ólöf Hera litla "frænka" fékk svo að spreyta sig á myndavéinni þar sem ég vildi ólm láta mynda mig á þessum eldrauða traktor.

Tuesday, January 17, 2012

Graskers cupcakes með piparkökukeim

 
Þessar gerði ég rétt fyrir jól þegar háskólavinkonur mínar komu til mín til Njarðvíkur í Litlu Jól. Ég á ennþá grasker í niðursuðudós sem ég kom með heim frá Bandaríkjunum og hef notað það í ýmsa rétti. Þessar "bollakökur" eins og farið er að segja á íslensku eru ótrúlega góðar, vel mjúkar og djúsí en samt í hollari kantinum. Ég bætti sjálf við piparkökukryddunum í lokin... svona af því að það voru að koma jól en það má sleppa þeim.

Graskers cupcakes með piparkökukeim
3, 75 dl heilhveiti 
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 tsk kanill
1/2 tsk negull
1/2 tsk engifer

1, 25 dl hunang
1, 25 dl graskersmauk
1, 25 dl mjólk
0,6 dl kókosolía
1 egg

Blanda blauta hér fyrir ofan saman vel saman í skál, hella svo þurrefnunum útí og blanda lauslega. Inn í ofn með þetta á 190° í 20-25 mín.

Kremið er hvít-súkkulaðismjörkrem en uppskriftina fékk ég hér: 
http://www.evalaufeykjaran.com/2011/11/gott-kokukrem.html
Einnig bætti ég grænum matarlit útí.. til að fá jólastemninguna að sjálfsögðu.

Sunday, January 15, 2012

Kýr og börn

Jebbs, ég les bara bækur sem hafa Stalín í titlinum...
Var að klára börnin (mæli með) og er nýbyrjuð á kúnum.

Saturday, January 14, 2012

Hús Fiðrildanna

Einn fagran haustdag kíktum við Harpa í búð sem heitir Hús Fiðrildanna en hún er í húsi sem heitir Hörpustaðir og er við Hörpugötu í Reykjavík. 
Þar var fullt af gersemum, mest um borðbúnað en einnig húsgögn og föt. Allt vintage eða antík að mér skilst. Húsið sjálft er líka ofurkrúttlegt, í framgarðinum blökta kjólar í trjánum og í bakgarðinum eru stólar og borð í fallegum litum og meirasegja stundum boðið uppá te.
Ég hvet ykkur til að kíkja í Hús Fiðrildanna, en áður er betra er að kynna sér opnunartímana hér.

Tuesday, January 10, 2012

Epla - og berja crumble


Ég veit ekki hvað þessi eftirréttur heitir á íslensku en góður er hann og ótrúlega einfaldur. 
Fékk hann fyrst hjá Elínu Ingu vinkonu sem hefur svipað mikinn áhuga á eftirréttum og ég..

Uppskriftin er einföld:
- 220 heilhveiti/spelt (hef prófað að gera þetta með venjulegu hveiti og fannst það ekki nærri jafn gott)
- 100 g sykur (ég minnka þó oftast sykurmagnið í uppskriftum en svona er hún upphaflega)
- 175 g smjör

- 1-2 epli 
- 400 g ber
(það er í raun hægt að nota eins mikið af ávöxtum og þið viljið og næstum hvaða ávexti sem er)

Hveiti og sykri er hrært saman í skál. Smjörið er skorið niður í teninga og svo er því bætt við og hnoðað líttilega með höndunum. 

Epli skorin í litla bita og sett í eldfast mót. Berin svo sett út í. Ég hef prófað að setja frosin blönduð ber en mér finnst betra að hafa aðeins bláber (mér finnst litlu rauðu berin of súr)

Deigið er svo lagt yfir og ég setti smá slettu af agave sýrópi yfir.

Inn í ofn með þetta á 180°og í 45-55 mín (í rauninni bara þegar þetta er orðið nokkuð brúnt)

Mjög gott að bera réttinn fram með vanilluís og rjóma.

Monday, January 9, 2012

Berlín


Það er ekkert launungamál að við erum skotin í Berlín. 
Ég fæ fiðrildi í magann að hugsa til þess að það eru ágætislíkur á að við munum jafnvel vera að flytja þangað akkurat eftir tvö ár og eyða þar allavega einni önn. 
Krossa putta um að það gangi eftir...