Eftir gott sumarfrí ætlum við loksins að taka upp þráðinn hérna á blogginu. Við erum flutt til Berlínar en áður en við setjum inn myndir frá dvölinni okkar hér ætlum við að halda áfram með Bandaríkjaferðalagið okkar frá því í sumar. Hvert vorum við annars komin?
Síðasta vorum við í Austin, Texas en þaðan keyrðum við til Louisiana á rúmum 9 klst. Við stoppuðum tvisvar á leiðinni þann daginn. Fyrsta stopp var San Antonio í Texasfylki.
San Antonio er lítil borg sem er hvað þekktust fyrir NBA liðið sitt og Alamo virkið þar sem ein frægasta orusta í sögu Bandaríkjanna átti sér stað. Satt best að segja var byggingin og svæðið í kring ekki mikið fyrir augað en þetta er víst vinsæll ferðamannastaður. Við lásum okkur til um söguna, röltum aðeins um en fannst þetta ekkert voðalega merkilegt.
Við stoppuðum stutt þar sem hitinn var nánast óbærilegur en við röltum þó meðfram ánni sem rann í gegnum borgina, en þar er fallegt um að litast, mikið af veitingastöðum og eflaust mikið líf þarna á kvöldin.
Eyþór hjá Alamo virkinu. Miðað við byggingar í Evrópu þá er þetta ekki merkilegur pappír.
San Antonio River walk.
Við héldum áfram keyrslunni yfir Texas fylki þar sem lítið var að sjá meðfram þjóðveginum. Afskaplega mikið af engu. Planið var að vera komin til New Orleans, Louisiana seint um kvöldið en til að verðlauna okkur eftir keyrslu dagsins, ákváðum við að snæða á áhugaverðum veitingastað.
Nottoway Plantation er stærsta plantekrusetrið í Suðurríkjunum í dag en því hefur verið vel viðhaldið frá því það var byggt árið 1859. Þar er í dag hótel og veitingastaður en einnig er hægt að fara í skoðunarferð um svæðið. Staðurinn er vinsæll til veisluhalda en akkúrat þegar við mættum á svæðið var brúðkaup í gangi í bakgarðinum.
Við höfum hvorugt séð jafn stórt og glæsilegt hús, þetta var svakalegt! Okkur fannst eins og við værum komin í bíómynd, þið getið ímyndað ykkur Django Unchained. Við fengum okkur að sjálfsögðu Suðurríkjamat eins og creole shrimp gumbo og grits.
Eftir matinn skoðuðum við húsið og röltum um útisvæðið og ahh, andrúmsloftið var engu líkt. Gríðarlegur hitinn, hljóðið frá skordýrunum (crickets, sem við vitum ekki hvað er á íslensku) og stjörnubjartur himinn gerði upplifunina einstaka. Ég fæ alveg í magann að hugsa til baka...
Lofthæðin er tæpir 5 metrar og hurðarnar eru rúmlega 3,30 metrar.
Seint um kvöld héldum við svo leið okkar áfram til New Orleans en að keyra í myrkri í Bandaríkjunum er ekkert djók... þvílíkur lúxus á Íslandi að hafa svona mikið af götuljósum!