Friday, November 15, 2013

Picayune, Mississippi - bátsferð og byssuskot

Þá er komið að áhugaverðasta áfangastaðnum sem var heimsóttur en það var án nokkurs vafa smábær í  Missisippi fylki sem heitir Picayune. Þar búa um 10.000 manns. Við vorum stödd í New Orleans þegar við áttuðum okkur á því að fjölskylduvinur ætti heima skammt frá borginni. Eftir að hafa útvegað okkur símanúmer mannsins var ákveðið að slá á þráðinn. Ég get með sanni sagt að ég átti í mestu erfiðleikum með að skilja manninn, svo þykkur var suðurríkjahreimur hans. Hann bauð okkur velkomin og tjáði okkur að það væri minnsta mál að við myndum gista í nokkra daga.

Það var ekki ætlunin enda maðurinn nánast ókunnugur. Maður þessi heitir John Lee. Hann er fyrrum hermaður sem var búsettur á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvellinum í kringum 1970. Þar kynntist hann móðursystur minni og saman eignuðust þau son. Þau skildu eftir stutt hjónaband. Drengurinn ólst upp á Íslandi en John fluttist aftur til Bandaríkjanna. Ég hafði hitt manninn einu sinni eða tvisvar á Íslandi en ekki átt í neinum samræðum við hann af viti. Það reyndist satt það sem þeir segja um Suðurríkjagestrisni. Okkur var tekið opnum örmum á heimili John eins og við værum hluti af fjölskyldunni.

John elskar Ísland. Hann segist fullviss um að hann hafi verið þar í fyrra lífi. Hann fann tengingu við landið alveg frá því hann steig úr flugvélinni á Miðnesheiði sem táningur, þá nýlega kominn frá Víetnam. Í hans huga er Ísland himnaríki. Á heitum sumardegi í Missisippi eins og var þegar ferlangarnir bönkuðu upp á hjá honum, er auðvelt að skilja hvers vegna honum líkar við landið okkar.

John bauð okkur í bíltúr þar sem farið var yfir það svæði sem fellibylurinn Katrína lagði undir sig um árið. Enn má sjá merki um þessar miklu náttúruhamfarir sem riðu yfir svæðið. Yfirgefin hús og grunna af húsum má sjá víðs vegar og húsin sem hafa verið endurbyggð rísa nú hátt yfir jörðu á þar til gerðum stikum, ef flóð skildi skella á, sem gerist býsna oft.

Við Íslendingarnir spurðum John spjörunum úr enda forvitin um þennan stað sem var okkur svo framandi. John er  að mörgu leyti eins og maður myndi ímynda þér karlmann frá Suðurríkjunum. Hann er alltaf með derhúfu, yfirleitt í gallaskyrtu, keðjureykir og keyrir um á pallbíl. Hann ræktar líka melónur og maís á landskika sem fjölskylda hans á. Eins og hann heldur sjálfur fram þá er þó eitthvað íslenskt í honum. Hann er alinn upp af presti en er þó ekki ýkja trúaður (á Suðurríkjamælikvarða). Hann sækir þó kirkju enda er það stór hluti af samfélaginu í Missisippi. Þar er nánast kirkja á hverju götuhorni. Missisippi er að mörgu leyti eitt verst stadda fylki Bandaríkjanna.  Aðeins um 80% íbúa fulkisins ljúka High School. Fæðingar meðal unglingsstúlkna eru algengastar í Missisippi af öllum fylkjum Bandaríkjanna þar sem 55 af hverjum 1000 börnum eiga móður á aldrinum 15-19 ára. Landsmeðaltal er um 34 börn af hverjum 1000.

John sagði okkur frá mörgum af þeim vandamálum sem samfélagið glímir við. Í bænum hans, sem ekki var ýkja stór, var mikið um fíkniefnaneyslu, þá sérstaklega harðra efna eins og krakks og methamfetamíns. Mikil fátækt virtist vera á svæðinu og margir hafa lent í því að missa heimili sín þar sem fellibylurinn Katrína er ekki sá fyrsti sem hefur dunið yfir svæðið. Síðan eru leyfar af þrælahaldi og kynþáttahatri áberandi á svæðinu. 
Um 40% íbúa fylkisins eru blökkumenn. 

Við vorum forvitin að vita hvort John ætti ekki byssu eins og sannur Bandaríkjamaður. Það var og, John átti um 20-30 stykki sem hann geymir í risastórum peningaskáp á heimili sínu. Reyndar svaf hann með Magnum 45 skammbyssu á náttborðinu, en annars voru vopnin læst inni. Þegar við vöknuðum fyrsta morguninn var búið að sækja vel valin vopn og nú skildu víkingarnir fá að munda hólkana. Mér stóð hreint ekki á sama en var á sama tíma mjög spenntur. Við ókum á golfbílum á landareign John með honum og Lewis vini hans. Tveir rifflar með í för og tvær skammbyssur. Sama hvað hver segir þá viðurkenni ég fúslega að það var gaman og spennandi að skjóta úr byssunum. Samt var ég stressaður þegar Valgerður var að handleikar byssurnar, hún á það til að vera klaufsk.

Náttúran á svæðinu er kannski ekki mikið fyrir augað, en framandi engu að síður. Flatlendi og tré og fenjar inn á milli. John bauð okkur í bátsferð á ánni Jourdan. Í tæplega 40 stiga hita var haldið í rúmlega þriggja tíma bátsferð alveg niður að Mexíkóflóa. Við fengum okkur sundsprett en einungis eftir að John sannfærði okkur um að krókudílar væru ekki á kreiki þar. Þeir væri annars staðar, neðar í ánni.

Eftir að hafa verið áður á Vesturströnd Bandaríkjanna, þá var það eins og að koma í aðra veröld þegar við lentum í suðrinu. Að þetta svæði skuli tilheyra sama landinu er hreint ótrúlegt. Upplifunin að fá heimamann til þess að sýna okkur hlutina og heimsækja staði sem líklega fáir ferðamenn láta sér detta í hug að heimsækja, var alveg hreint kyngimögnuð.

John á maísakrinum sínum. Skoðar uppskeruna.
Hörkutól á ferðinni.
Mér var tjáð að ég væri efnileg skytta. Held mig frekar við körfuboltann.
Steiktan kjúkling og við erum komin með máltíð.
Þarna leið mér eins og smástráki, skemmtileg upplifun.
Valgerður er vúú stelpa.
Okkur stóð ekki alveg á sama þegar við stungum okkur til sunds.
Útsýnið úr bátnum var áhugavert.

3 comments:

Þorsteinn Surmeli said...

Skemmtilegt!

Ásdís said...

Mjög skemmtileg lesning!

Erik Óli said...

Pængsi túristi á síðustu