Monday, January 6, 2014

Gropiusstadt, Berlín

Halló halló og gleðilegt nýtt ár!
Ég ætla ekki að fara mikið út í árið 2013 en það var eitt það besta sem við höfum upplifað að ég held. Við byrjuðum árið á Íslandi, fluttum svo til uppáhalds borgarinnar minnar, Seattle þar sem ég fékk langþráðan draum uppfylltan - að stunda nám við University of Washington. Við eyddum vorönn í borginni þar sem við bjuggum hjá yndislegu fólki og eyddum að sjálfsögðu miklum tíma með amerísku (fóstur)fjölskyldunni minni sem ég bjó hjá þegar ég var 17-18 ára. Það var mikið ferðast á árinu en auk þess að fara í stuttar ferðir til Vancouver, Oregon fylkis og til ýmissa staða í Washington fylki fórum við í 3ja vikna roadtrip (með nokkrum flugferðum að vísu) frá Seattle til New York, með viðkomu í Suðurríkjunum og í Mið-vestrinu. Fyrir nokkrum árum setti ég mér markmið að fara í road-trip um einhvern hluta Bandaríkjanna á næstu árum og er gaman að geta krossað það af listanum, þó að okkur langi nú helst bara strax aftur og þá að skoða önnur fylki. 

Við dvöldum á Íslandi í 2 mánuði í sumar og þar náðum við nokkrum bústaðarferðum á milli þess sem við unnum. Því næst fluttum við til Berlínar þar sem við verðum fram á sumar en hér mun ég eyða síðasta námsárinu mínu. Berlín hefur farið vel í okkur, ég er ánægð í skólanum og við búum í stórri íbúð í æðislegu hverfi. Nú þegar höfum við farið til tveggja þýskra borga, til Potsdam og Dresden og stefnum við á að ferðast meira um Þýskaland þegar tekur að vora. 

Nýafstaðin jólahátíð var ein sú besta sem ég hef upplifað en við vorum svo heppin að geta eytt henni með báðum fjölskyldum okkar, án þess að fara til Íslands. Við eyddum jólunum í Dublin með fjölskyldunni hans Eyþórs og svo komu foreldrar mínir og litli bróðir (sem er ekki svo lítill lengur..) til okkar eftir jól og voru yfir áramót. Það er því frekar tómlegt hér í dag og smá erfitt að venjast hversdagsleikanum aftur eftir yndislegar samverustundir með fólkinu okkar. 

En þetta átti alls ekki að vera svona langur pistill. Nýársheitið er að vera duglegri að blogga, svona mest til þess að amma mín hætti að kvarta yfir myndaleysi ;)
Myndirnar hér að neðan eru teknar fyrr í haust en þá fórum við í heimsókn til Gropiusstadt.

Gropiusstadt er stórt blokkarhverfi sem var byggt um 1960 í gömlu Vestur-Berlín til þess að mæta auknum fólksfjölda í borginni og að bæta skort á húsnæði eftir stríðið. Úr varð risastórt steypuhverfi, aðallega með félagslegum íbúðum fyrir lágstéttarfólk. Mig hafði langað að heimsækja hverfið allt frá því að ég las Dýragarðsbörnin fyrir nokkrum árum. Bókin segir sanna sögu Christiane F. sem ólst einmitt upp í Gropiusstadt og var orðinn heróínfíkill og vændiskona 13 ára gömul. Christiane lýsir hálf ömurlegum uppeldisaðstæðum sínum í bókinni og talar einnig um hversu niðurdrepandi það var að alast upp í hverfinu.

Hverfið er þó mun skárra í dag en er samt enn eitt fátækasta hverfi borgarinnar. Þar sem amma Cerruh býr er umhverfið rólegt og aðallega eldra fólk sem býr í hennar blokk. Þetta er engan veginn eins og að labba í gegnum amerískt "project", það er allt frekar snyrtilegt og íbúðirnar eru alveg ágætar. Við fengum að fara upp á 27. hæð í hæstu blokkinni og útsýnið var mjög skemmtilegt. 


Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira um Gropiusstadt, geta kíkt hér, á eina af uppáhalds síðunum mínum. Annars mæli ég líka með bókinni Dýragarðsbörnin.

3 comments:

Unknown said...

MJÖG ánægð með áramótaheitið þitt :)

hildur björk said...

ég líka!! :) loksins. mjög skemmtó blogg :)

Valgerður said...

hehe snilld, ánægð með að þið eruð ánægðar!