Monday, February 27, 2012

og svo..


..kíktum við líka á fatamarkað fyrir utan Faktorý þar sem ég sá eina bláklædda gullstelpu með eldrautt hár og hitti eina af mínum uppáhalds sem er núna á flakki um S-Ameríku.
Tveir skemmtikraftar voru svo alklæddir í fjólublátt sem er vel að mínu skapi.
Við hittum sæta fjölskyldu í Ráðhúsinu þar sem systraborgasambandi Reykjavíkur og Seattle var fagnað með indjánasöngvum eins af ættbálkum Washinton fylkis sem kom til landsins í þeim tilgangi.
Bílnum var svo lagt (ólöglega) á Sæbrautinni í nokkrar mínútur á meðan við stukkum út og smelltum myndum af flugeldasýningunni sem er að margra mati hápunktur Menningarnætur.

Sunday, February 26, 2012

Á degi menningarnætur í fyrra..


... fórum við í götupartý í uppáhaldsgötunni okkar í Reykjavík, fengum ókeypis möffins, skoðuðum notuð föt og plötur til sölu og hlustuðum á söng kallakórs. 
Eyþór keypti sér skó fyrir smá pening + nokkra bjórmiða á Faktorý (maður reddar sér...).
Síðasta myndin var svo tekin af starfsmanni bandaríska sendiráðsins sem vildi fá sparibrosið þegar við röltum í gegnum bakgarð sendiherrans eftir að hafa labbað í gegnum mjög svo amerískt innréttað heimili hans þó með nokkrum frávikum sem voru listaverk frá Guatemala þaðan sem sendiherrann er ættaður.

Thursday, February 23, 2012

Karamellukaka


Þessa bakaði ég síðustu helgi og sló svona líka í gegn hjá fjölskyldumeðlimum sem fengu sér sneið með bollukaffinu á sunnudaginn.
Uppskriftina fékk ég í nýjasta blaði Gestgjafans sem maðurinn kom færandi hendi einn daginn (hann kann að velja gjafir þessi). Í Gestgjafanum segir að uppskriftin sé sú sem Minnie í The Help bakaði alltaf þegar hún átti erfiða daga.. ég man hins vegar ekkert eftir því í myndinni en ljósmyndin af kökunni var nóg til þess að mig langaði að prófa (ok og kannski líka að ég er sjúk í karamellu)

Þessi er svo langt frá því að vera holl.. enda er ég alls ekkert hollustufrík þó mér finnist skemmtilegra að baka krefjandi kökur - semsagt að gera kökur úr náttúrulegu eða aðeins hollara hráefni og gera hana ljúffenga, það er áskorun sem mér finnst gaman að takast á við.
En stundum vill maður bara einfaldleikann, að þurfa ekki að kaupa endalaust af dýrum hnetum, þurrkuðum ávöxtum og slíku. Mamma átti t.d. allt í þessa köku og því var búðarferð óþörf.

Karamellukaka
(úr Gestgjafanum)

Botnar:
2 dl mjólk
180 g smjör
300 g hveiti
1 og 1/2 tsk lyftiduft
3 egg
200 g sykur
1 tsk vanilla

Karamellukrem:
70 g smjör
250 g púðursykur
1 dl rjómi
200 g flórsykur
40 g mjúkt smjör

Hitið smjör og mjólk saman í potti við vægan hita (ekki sjóða). Blandið saman hveiti og lyftidufti í skál. Þeytið egg og sykur saman í hrærivél/með handþeytara þannig að blandan verði létt og loftkennd. Setjið hveitið út í og svo mjólkurblönduna og látið vélina ganga á minnstum hraða á meðan. Setjið vanilludropa út í og hrærið örlítið meira. 
Smyrjið tvö 22/24 cm lausbotna form og bakið við 175° í um 20 mín.

Kremið: 
Sjóðið smör og púðursykur saman í potti við miðlungshita (í 8 mín segir í uppskriftinni). Hellið rjómanum út í og látið sjóða í 1 mín (þetta á að vera bullandi). Takið af hellunni og látið aðeins kólna. Setjið karamelluna í hrærivél og bætið flóryskri við þangað til kremið fer að kólna. Bætið svo mjúka smjörinu út í að lokum og hrærið vel. 

Smyrjið kreminu á kökuna þegar hún er búin að kólna og etið með bestu lyst!
(Mér fannst kakan svo tómleg, mig langaði að skreyta hana aðeins þannig að ég henti í pott einu mars súkkulaðistykki, nokkrum bitum af hreinu Nóa rjómasúkkulaði og smá rjóma og bræddi þetta saman yfir vægum htia og hellti yfir kökuna. Gerði mjög mikið fyrir kökuna fannst mér)

Wednesday, February 22, 2012

AfmælisPáll

Litli besti bróðir minn á afmæli í dag.. ekki svo lítill lengur þar sem hann er orðinn 13 ára.


(hér er hann í bílnum á Hvalsnesvegi á leiðinni í myndatöku útí fjöru með Eyþóri síðustu helgi)

Sterkustu lýsingarorð geta ekki lýst því hveru mikið ég elska þennan dreng, hlakka til að knúsa hann í kvöld!

Monday, February 20, 2012

Góð vika..


...endaði með kósýkvöldi að ósk heimilisprinsins. 
Mikill metnaður í eldhúsinu þetta föstudagseftirmiðdegi þar sem ég varð að nýta mér að hafa aðgang að Kitchen Aid vélinni hennar mömmu. Útkoman var virkilega gómsæt karamellukaka.
Salsaréttirnir voru tveir þar sem verðandi táningurinn eftir 2 daga borðar ekki rauðlauk...

Friday, February 17, 2012

Strawberry cupcakes



Jarðaberja cupcakes
 (uppskrift innblásin af möffins uppskriftum Lísu Hjalt)
 
3,75 dl spelt
40 g haframjöl
2 tsk lyftiduft
½ tsk fínt sjávarsalt
1 tsk vanilla
1 egg
1 dl hrásykur
½ matskeið sítrónusafi
1 matskeið kókosolía
3 bananar (eða barnamatur með epla og/eða bananabragði að sama magni og um 3 bananar, myndi segja 3 litlar glerkrukkur)
1, 5-2 dl frosin jarðaber (smekksatriði)
25 g möndlur, saxaðar


Takið jarðaber út úr frystinum. Blandið þurrefnunum saman í stóra skál og setjið til hliðar. Í aðra og minni skál, hrærið saman eggi, hrásykri, sítrónusafa og brædda kókosolíu (setjið annað hvort krukkuna inn í örbylgjuofn eða undir heitt vatn). 
Stappið bananana og blandið út í eggjablönduna (eða setjið barnamatinn út í). Saxið möndlurnar mjög smátt (eða setjið í matvinnsluvél) og setjið út í þurrefnaskálina.Notið sleikju til þess að blanda blautefnunum rólega saman við þurrefnin og alls ekki hræra mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta deiginu með sleikjunni þar til hráefnin hafa blandast saman. Saxið jarðaberin sem eru enn ágætlega frosin,  í munnbita og blandið þeim rólega saman við deigið.
Hellið deiginu í sílíkonform (það er erfitt að nota pappírsform fyrir þessar þar sem það er svo lítið af fitu/olíu í uppskriftinni - ég setti í sílikonform rétt upp að helming og setti þær svo í pappírsformin eftir að kökurnar komu úr ofninum bara af því að mér finnst betra að hafa þær í pappírsformum, sérstaklega þegar maður setur krem ofan á).
Bakið við 180° í um 25 mín.
Látið kólna og smyrjið vanillukremi ofan á (í þessar notaði ég tilbúið krem en ég kem bráðum með uppskrift af hollum kremum úr kókosmjólk!).
Skreytið með jarðaberi ef þið viljið, það er svo fallegt :)

Wednesday, February 15, 2012

Glory to the North?

Þessi mynd vann til fyrstu verðlauna í alþjóðlegri ljósmyndasamkeppni í flokknum daglegt líf en hún sýnir hvar ekkert rafmagn er í borginni Poyngang nema á mynd af Kim Il Sung, stofnanda Norður Kóreuríkis. 


Einmitt um slíkt tilvik og margt annað fræddist ég um í þessari bók hér, Engan þarf að öfunda. Mæli með henni!


... annars smá update á bókalestri mínum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Kýr Stalíns eftir Sofi Oksanen og hætti að lesa eftir hálfa bók. Varð svo svekkt þar sem mér fannst Hreinsun eftir sama höfund mjög góð...

Monday, February 13, 2012

Hnetusmjörsstykki með rice crispies



Ég elska alls konar rice crispie treats (stykki?). Karamellu eru best, súkkulaði klassísk, döðlustykkin með súkkulaði eru ótrúlega góð líka og svo eru nokkrar útgáfur af hnetusmjörsstykkjum sem eru virkilega góðar þrátt fyrir að ég sé ekki mikil hnetusmjörskelling.
Þessi stykki gerði ég þegar ég fékk íslenska gesti í sunnudagskaffi úti í Vín. Ég var búin að gleyma þeim og hef ekkert gert þau síðan þá en mmm...þau voru æði!


Hnetusmjörsstykki með rice crispies
(man ekki hvar ég fann upprunalegu uppskriftina)


0,65 dl smjör
285g marshmallows
2 dl hnetusmjör (má vera meira)
u.þ.b. 1,5 dl suðusúkkulaði/rjómasúkkulaði (einnig algjört smekksatriði hvað þið viljið hafa mikið súkkulaði ofan á)
slatti af rice crispies (það er erfitt að gefa upp nákvæmt magn þar sem það er smekksatriði hversu djúsí fólk vill hafa þetta)


Aðferð
Bræðið smjörið í potti. Skellið marshmallows út í og bræðið þá þangað til þetta er orðið að hvítri "leðju". 
Setjið rice crispies útí - ég byrja alltaf á að hella smá, svo meira..svo meira.. þið skiljið þetta. Maður reynir að nota sem mest af rice crispies án þess þó að það verði of mikið og þurrt. Maður vill líka hafa þetta vel klístrað og djúsí :) 
Hellið blöndunni í smurt kassalaga form. Setjið inn í ísskáp í svona hálftíma-klst. Á meðan er fínt að bræða súkkulaðið í potti yfir vægum hita. Takið út úr ísskápnum og smyrjið botninn með hnetusmjöri. Hellið því næst súkkulaðinu yfir og skellið aftur í ísskápinn þangað til súkkulaðið harðnar.

Sunday, February 12, 2012

Einn dag í Austur Evrópu

Ég þrái að ferðast meira um Austur Evrópu, og þá sérstaklega fyrrum Sovétríkin. Mig langar helst til Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands en ég hugsa að fyrstu áfangastaðirnir verði Moskva og St.Pétursborg... hvenær sem það verður (Eyþór hefur engan áhuga á að fara með mér til þessara landa).

Fljótlega eftir að við fluttum til Vínar tókum við lestina yfir til Bratislava sem er höfuðborg Slóvakíu og eyddum þar einum degi en ég hef farið alls 3x í dagsferðir til þessarar litlu borgar. Það var fallegur haustdagur og við röltum um gamla bæinn, borðuðum hádegismat á veitingastað við hliðina á kastalanum sem gnæfði yfir borgina. Það var svakalegt útsýni og það var vel við hæfi að fá sér eins og eitt hvítvínsglas með matnum til þess að njóta augnabliksins.
Við hugsum alltaf með hlýju til þessa dags og krúttlegu borgarinnar en dagsferð er þó alveg nóg til þess að njóta þess sem Bratislava hefur upp á að bjóða.

Thursday, February 9, 2012

Karamellu brownies

Þessi kaka kemst í topp 10 af óhollum kökum hjá mér.
Rrrrrosaleg!
Þeir sem þekkja mig vita að ég er svakaleg karamellustelpa og ég hef einu sinni áður gert svona brownies en þá var uppskriftin greinilega ekki nógu góð þar sem þessi er 100x betri.


Karamellu brownies 
(uppskrift af Annie's Eats)

2,5 dl ósaltað smjör
5 dl (um 340g suðusúkkulaði)
3 dl sykur
4 egg
1 tsk vanilludropar
3 dl hveiti/heilhveiti
1/2 tsk salt
einn poki af pekanhnetum (150g held ég)
2,5 dl súkkulaðibitar

Karamellufylling
400 g ljósar karamellur (við notuðum vanillu fudge, fæst t.d. í nammibarnum í Bónus í Njarðvík en það er líka hægt að nota Freyjukaramellur)
smá mjólk (tæplega 1 dl)

Aðferð
Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti yfir vægum hita. Takið pottinn af pönnunni. Hrærið sykurinn, eggin og vanillu útí með písk. Blandið hveitinu og saltinu út í og hrærið með sleif.
Smyrjið skúffukökuform (þetta smellpassaði í formið sem þið sjáið á myndinni) með smjöri/olíu og hellið helminginn af deiginu í formið. Bakið við 180°í 20 mín.
Takið út að bökunartíma loknum og kælið kökuna í 20 mín eða leyfið henni að standa í lengri tíma.
Í biðinni er upplagt að rista aðeins hneturnar á pönnu.
Einnig er gott að útbúa karamellusósuna, einfaldlega hendið bara karamellunum í pott og bræðið þær saman yfir vægum hita og hellið smá mjólk út á í byrjun.
Þegar kakan er orðin nógu köld/volg, hellið helmingnum af hnetunum út í karamellusósuna og yfir kökuna. Setjið því næst restina af deiginu yfir og stráið svo restinni af pekanhnetum + súkkulaðibitunum yfir.
Bakið í 20 mín í viðbót.
Leyfið kökunni svo að standa í smá tíma svo að hún verði stinn eins og brúnkur eiga að vera.

(Ég átti svo fallegar og girnlegar myndir af kökunum sem Eyþór tók en hann henti þeim óvart! þannig að þetta verður að duga.. )