Monday, March 26, 2012

Evrópuvika

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti var haldin hátíðlega á Íslandi síðustu viku og þess vegna hefur lítið heyrst frá mér hér - þar sem við erum aðal skipuleggjendur vikunnar er búið að vera brjálað að gera í vinnunni.
Vikan endaði á hádegistónleikum í HÍ og í vitundarvakningu í Smáralind og það var ekkert smá gaman á föstudaginn, þó það hafi verið pínu stress að allt myndi ganga upp. 
Retro Stefson voru æði eins og alltaf og leikskólabörn gerðu sér ferð uppí háskóla til að dilla sér með þeim á fremsta bekk. 
Um hundrað ungmenni komu svo saman í Smáralind til að dreifa bæklingum um kynþáttafordóma og því fylgdi mikið húllumhæ..

Það verður aftur rólegt á blogginu þessa vikuna þar sem ég er á leiðinni til Brussel eftir tvo daga. Ætla að reyna taka skemmtilegar myndir þar á þeim nokkrum klukkutímum sem ég fæ í frí frá fyrirlestrum.

Thursday, March 22, 2012

Rolo muffins

Þessar múffur gerðum við litli bróðir saman en við vildum gera eitthvað upp úr Disney matreiðslubókinni hans. Þar fundum við súkkulaðibitamuffins en þar sem við erum bæði soldið súkku/karamellusjúk þá datt okkur í hug að setja rolo bita í staðinn fyrir súkkulaðibita. 
Það heppnaðist mjög vel og þessar eru afar gómsætar.


Rolo muffins
úr Disney matreiðslubók - breytt uppskrift
150 g sykur
150 g smjör
3 egg
160 g hveiti
1 tsk kanill
2 tsk lyftiduft
dass af salti
2 rúllur af rolo
Krem:
3 rúllur af rolo
smá mjólk/rjómi til að bræða saman


Byrjað er að þeyta smjör og sykur saman - ég notaði Kitchen Aid vél í það. 
Síðan er einu og einu eggi bætt saman við og hrært vel.
Restin er sett útí og aftur - hræra vel.
Formin gerð tilbúin og síðan er deiginu hellt út í - en bara upp að hálfu formi. Síðan settum við tvo rolo bita í hvert form og smá deig aftur yfir til að þekja bitana.
Þetta er svo bakað við 200° í um 15 mín.


Til að gera þetta enn meira djúsí bræddum við 3 rolo rúllur í potti með smá matreiðslurjóma, settum svo inní ískáp og leyfðum þessu að kólna og þykkjast í um 2 klst. 

Tuesday, March 20, 2012

Eyðibýli


Á Snæfellsnesinu er þetta eyðibýli sem við Eyþór & Sæunn systir hans skoðuðum eitt sumarið þegar við vorum á ættarmóti.
Svo sorglegt að sjá hvernig farið hefur verið með sum hús. Þetta hefur einu sinni verið fallegt en það var frekar óhugnalegt þegar við kíktum inn, það var stigi upp og líka niður í kjallara þar sem allt var dimmt.
Við ákváðum að vera ekkert að kíkja niður þegar við komum auga á fuglinn sem hefur eflaust ekki hlotið notaleg endalok á sínu lífi..

Monday, March 19, 2012

Súkkulaðikrem úr kókosmjólk



Vissuði að það er hægt að gera snilldar krem úr kókosmjólk?
Chocolate Covered Katie var með svo girnilega uppskrift að ég varð að prófa og athuga hvort þetta væri virkilega hægt, að gera þykkt krem úr kókosmjólk.
Galdurinn er sá að leyfa kókosmjólkinni að þykkna inní ískáp yfir nótt!
Maður opnar dós og tekur þykka partinn af kókosmjólkinni (semsagt ekki lekandi vökvann) úr með skeið og setur í skál. Síðan er skálin sett inn í ískáp - ekki hulin með plasti eða neinu. 
Daginn eftir er kókosmjólkin orðin vel hörð og þá er hægt að setja sætuefni, kakó og vanillu að vild og hræra svo með handþeytara þangað til þetta er orðið svona þykkt og fínt eins og á myndunum hér fyrir ofan.


Súkkulaðikrem úr kókosmjólk
1 dós kókosmjólk (fjólubláa dósin frá Coop hentar mjög vel - aðrar gætu verið of lekandi eins og t.d. þessar lite dósir sem hægt er að fá, ég er ekki viss um að þetta myndi virka með þeim)
0,7 dl kakó
agavesýróp/sykur að vild - hér myndi ég prófa mig áfram hversu sætt þið viljið hafa þetta. Ég setti held ég 1 msk af sykri og smá skvettu af agavesýrópi (ekki setja of mikið af agave sýrópi því þá verður kremið ekki nógu þykkt)
1 tsk vanilludropar


Ég hef notað þetta sem krem en einnig sem súkkulaðimús. 
Þá setti ég gríska jógúrt og súkkulaðimús sitt á hvað í glas og smá súkkulaðibita og vínber ofan á.
Mjög gott og sérstakt bragð.


Þegar ég gerði sítrónumúffurnar með birkifræjunum um daginn þá notaði ég einnig kókosmjólk.
Lét hana þykkna inní ískáp yfir nótt og setti svo smá sykur og kreisti sítrónu yfir. Það var ótrúlega ferskt og gott krem, aðeins úr kókosmjólk, sítrónusafa og pííínu sykri, einfaldara gerist það varla :)

Friday, March 16, 2012

Sunnudagseftirmiðdegi..


..eru svo notaleg.

Litla bróður* langaði að elda og baka með mér og úr varð gómsætt kjúklingapasta með ostasósu og Rolo-muffins.

Það er soldið þægilegt að geta af og til nýtt sér stóra eldhúsið hennar mömmu með öllum tækjunum sem hún á. Ég hef oftast átt lítil eldhús en í Vínarborginni var eldhúsið nokkuð rúmgott í sérherbergi í enda íbúðarinnar. Nú til dags er orðið svo vinsælt að fólk vilji hafa opin eldhús en í gömlum íbúðum í Mið-Evrópu er mikið um niðurhólfaðar íbúðir. Mér fannst það snilld þar sem ég gat lokað af mér, stillt austurríska útvarpið á hæsta og dundað mér þar inni án þess að trufla einn né neinn. 
Eldamennska og bakstur hefur svo róandi áhrif á mig, mér finnst fátt jafn notalegt og að dunda mér í eldhúsinu.

* sjáiði hvað hann er fínn í svuntunni sem hann saumaði sjálfur!
(stóra systir ekki alveg jafn fersk - maður nýtir sér það sko á eina degi vikunnar sem maður slappar af að mála sig ekki!)

Thursday, March 15, 2012

Hveitikímsklattar



Jæja þá er maður kominn á ról aftur eftir ælupest og leiðindi, maðurinn kominn heim og allt eins og það á að vera.
Ég á nokkrar gómsætar uppskriftir í pokahorninu en myndirnar bíða eftir að fá að komast inn í tölvuna mína þannig að mig langaði að mæla með hveitikími í millitíðinni.
Hveitikím er rosa sniðugt fyrir þá sem vilja forðast brauð en vilja eitthvað svipað nema mun hollara.
Yggdrasil segir hveitikím meirasegja eina næringaríkustu fæðu sem völ er á!
,,Hveitikím inniheldur 23 næringarefni og magn næringarefna í hverju grammi er meira en í nokkru öðru grænmeti eða korni. Vegna þess að hveitikím er svo ríkt af næringarefnum, vítamínum, járni og trefjum er hægt að leggja að jöfnu u.þ.b. 30 g af hveitikími og 250 g af grænmeti sem eru góðar fréttir fyrir þá sem þurfa að auka magn grænmetis í fæðunni og ekki síður fyrir þá sem þurfa að skera niður neyslu á einföldum kolvetnum."
Nokkuð gott!

Ég geri nokkrar útfærslur af hveitikímsklöttum en ofan á þá set ég ýmislegt eins og skinku, pestó, tómatsósu, parmesan, salat, ferskt grænmeti, niðursoðið egg ofl. 

Hveitikímsklattar
- á pönnu/í samlokugrilli:
Ég set 1 dl af hveitikími, kúmenfræ, sesamfræ og þau krydd sem ég vill (oftast salt, pipar og oregano) og blanda þessu í stórt glas/háa skál eða nestisbox. Ég brýt eitt egg út í og smávegis af vatni (þetta á að vera eins og þykkur hafragrautur), vatnsmagnið er bara slumpað en kannski 1-2 msk, gott að prófa sig áfram, þetta má ekki verða of þunnt og egg eru misstór.
Þessu hræri ég með gaffli og set út á heita pönnu og úr þessu fæ ég 2 klatta/sneiðar. Ég strái svo stundum parmesan yfir. 
Sama með grillið - ég set þetta í George Foremanninn og læt þetta steikjast vel.

Einnig er hægt að gera þetta án eggja fyrir þá sem eru vegan. En þá mæli ég ekki með að steikja né setja í grill því þá helst þetta engan veginn saman. Hins vegar er hægt að nota BARA vatn og hafa deigið þá mun þurrara, það á rétt að klístrast saman. Það á að vera hægt að móta kúlur úr deiginu sem ég flet svo út, set á disk með sesamfræjum til að umlykja sneiðina með fræjum. Sneiðarnar eru lagðar á bökunarpappír á plötu og inn í ofn á 180°og bakað í um 25-30 mín. Þegar þetta er gert þá mæli ég með að stækka uppskriftina og prófa sig áfram með vatnsmagnið, það má alls ekki setja of mikið. Ég geri slatta af klöttum og frysti, svo er hægt að taka þetta með sér og rista í vinnunni. 

Athugið að hveitikím verður að geymast í kæli!

Sumum finnst hveitikímsbragðið ekki gott. Mér finnst það ágætt en mér finnst nauðsynlegt að hafa kúmenfræin, þau gefa svo sterkt og gott bragð. Þetta er heldur bragðdauft án þeirra.

Maður fær líka soldið leið á þessu ef maður borðar mikið af þessu. Enda borða ég alveg venjulegt brauð líka..

Sunday, March 11, 2012

P50 á Hótel Rangá

Nei, þetta er ekki fjölskyldujólakort Kardashian fjölskyldunnar í ár...

Besti pabbinn varð fimmtugur í síðustu viku og fór öll fjölskyldan saman á Hótel Rangá. 
Þar snæddum við góðan mat og fengum smá sjokk þegar eigandi hótelsins tilkynnti borðgestum að það sæist í norðurljós. 95% gesta var rokinn út um dyrnar á svona tveimur sekúndum og eftir sátu Íslendingar á tveimur borðum. Eyþór var að tala í símann frammi þegar þetta átti sér stað og sagði við vin sinn að hann þyrfti að skella á því það væri sennilega að kvikna í hótelinu (svona var æsingurinn í túristunum).

Fyrir mat fengum við fordrykk og kræsingar inni á herberginu og þar gáfum við pabba afmælisgjöfina sem var 66 mínútna vídjó sem fjallaði um hann. Mikil vinna búin að vera í vídjóið og fullt af vinum og ættingjum sem tóku þátt í þessu með okkur. Gamli var held ég bara hæstánægður með gjöfina :)

Eftir matinn fengum við svo túr um lúxussvíturnar sem voru lausar þann daginn. Það var ekkert smá skemmtilegt, ótrúlega flott hönnun og örugglega upplifun að gista þarna. Síðasta myndin er einmitt tekin í Suðurskautssvítunni. 

Yndislegt kvöld með fjölskyldunni og mæli ég svo sannarlega með Hótel Rangá, litli bróðir er farinn að leggja fyrir pening svo hann geti einhvern tímann gist í lúxussvítunum..

Friday, March 9, 2012

Fyllt paprika með bulgur


Hafið þið smakkað bulgur?
Þær eru ótrúlega góðar og einfaldar að elda.
Þetta er svona mitt á milli kúskús og hrísgrjóna en stútfullt af góðri næringu.
Bulgur eru þekktar í Mið-Austurlöndum en eru að skapa sér vinsælda hér á landi miðað við úrval og uppskriftir á netinu allavega..
Bulgur eru trefjaríkar, próteinríkar og heldur kaloríusnauðar miðað við t.d. hrísgrjón.
Ef þið hafið áhuga á að lesa meira um þessa snilld, gjörið svo vel.

Eldunaraðferðin er mér að skapi, ég setti 2 dl af bulgur (ég keypti brúnar en ekki  hvítar) í skál, sauð vatn í vatnshitara en setti einn grænmetis - og einn kjúklingatening útí vatnshitarann áður. Síðan hellir maður 4 dl af vatninu út á og hylur þetta með álpappír. Það tekur bulgur um 20 mín að vera tilbúnar. Algjör snilld þar sem maður þarf ekkert að fylgjast með hvort þetta sé að brenna við eða ofsjóðast..

Ég hef gert bulgur á tvennan hátt og ætla að deila með ykkur gumsi sem ég bjó til. Ég hef semsagt gert tvær fyllingar í papriku og grillað hana svo.
Það er vel hægt að nota þetta sem meðlæti eða aðalrétt og þá er þetta svipað og t.d. risotto.

Fylling 1:
2 skallottulaukar
4 hvítlauksrif
- þeta steikt á pönnu og kryddað með cumin, salti og pipar.
Smátt skornum sveppum bætt við á pönnuna og steikið þá (magnið var kannski 3/4 af sveppakassa)
Þessu blanda ég svo við bulgurnar þegar þær eru tilbúnar og svo setti ég valhnetur út á í lokin sem mér fannst algjört must.

Fylling 2:
2 skallotulaukar
4 hvítlauksrif
- þetta steikt á pönnu og kryddað með karrí, basil, salti og pipar.
hálf sæt kartafla, skorið í litla teninga
2 tómatar, saxaðir
handfylli af ristuðum furuhnetum
- þessu er svo bætt við á pönnuna og kryddað smá meira með basil. 
Svo er þessu blandað við bulgurnar og troðið inn í eins og eina fallega rauða papriku sem búið er að skera "lokið" af.

Paprikan er sett inn í ofn og elduð í um 40 mínútur, mér finnst gott að hafa hana vel mjúka.
Annars væri örugglega gott að sleppa því að elda hana og hafa hana bara ferska.

P.s. eruði að grínast hvað skallottulaukur er góður!? Keypti hann í fyrsta skipti um daginn og hann er ótrúlega bragðgóður! Mæli með að þið prófið :)

Monday, March 5, 2012

Einu sinni..


..fórum við út að Reykjanesvita og dáðumst að náttúrunni.
..borðuðum við "puttapasta" að hætti Grettisborgar fjölskyldunnar.
..bjuggum við til sushi með tengdó.
..borðaði ég hafragraut með hunangsgljáðum kanileplum og heslihnetum.
..keyrðum við til Grindavíkur og sáum skemmtilega lituð hitaveituhús.
..gerði ég loksins krullur í stutta hárið mitt.