Thursday, March 1, 2012

Döðlu - og sítrónustykki


Þessi stykki eru ekta hollur millimálsbiti. Þau svipa til LÄRABAR ef þið kannist við þau.
Ég hef tekið 2-3 stykki með mér í vinnuna undanfarið og þetta er ótrúlega gott og saðsamt! 
Ég er með smá æði fyrir sítrónum þessa stundina og það er mjög góður sítrónukeimur af þessum 
(ég missti mig að vísu pínu og setti soldið mikið af sítrónu sem var heldur mikið fyrir suma á þessu heimili, en það var þá bara meira fyrir mig ;)
Ég ætla að prófa mig áfram og prófa alls konar útgáfur af svona hollustu millimálsstykkjum því þetta er snilld fyrir kex-brjálæðinginn mig (kemur samt ekki beint í staðinn...) sem verður að fá sér eitthvað gott á milli mála.

Döðlu - og sítrónustykki
Uppskrift frá Shutterbean

450g saxaðar döðlur
2,5 dl möndlur
1,25 dl kasjúhnetur
1 msk sítrónubörkur/af einni sítrónu (passa hér að rífa ekki alveg inn að hvíta berkinum, hann er beiskur)
2 msk kreistur sítrónusafi
1 tsk sítrónudropar (má sleppa)

Ég mæli með því að saxa döðlurnar og jafnvel leggja aðeins í bleyti því þetta ferli var mjög erfitt fyrir matvinnsluvélina mína af því að döðlurnar voru ekki mjög mjúkar og ég var ekkert búin að skera þær niður. Þið metið það bara út frá ykkar matvinnsluvél og hversu mjúkar döðlurnar eru. 
Setjið döðlurnar, möndlur, kasjúhnetur og rifinn sítrónubörk í matvinnsluvél og blandið mjög vel saman.
Hellið svo vökvanum út í (ég myndi prófa mig áfram hér hversu mikinn sítrónusafa þið viljið og sítrónudropa ef þið eigið þá, prófa fyrst 1 msk og sjá hvort þið viljið enn meira sítrónubragð).
Vinnið vel þangað til vel klístrað.
Setjið beint í kassalaga form eða setjið bökunarpappír/plast fyrst (ég gerði það ekki en það er af því að mér er sama um þetta form og sker alltaf bara beint í það)
Kælið inni í ískáp í svona 2-3 klst. Skerið svo í bita af þeirri stærð sem þið viljið.
Gott er að geyma í nestisboxum inni í ískáp, þetta geymist nokkuð lengi þannig.

1 comment:

Ásdís said...

Namm! Lítur vel út :)