Jæja þá er maður kominn á ról aftur eftir ælupest og leiðindi, maðurinn kominn heim og allt eins og það á að vera.
Ég á nokkrar gómsætar uppskriftir í pokahorninu en myndirnar bíða eftir að fá að komast inn í tölvuna mína þannig að mig langaði að mæla með hveitikími í millitíðinni.
Hveitikím er rosa sniðugt fyrir þá sem vilja forðast brauð en vilja eitthvað svipað nema mun hollara.
Yggdrasil segir hveitikím meirasegja eina næringaríkustu fæðu sem völ er á!
,,Hveitikím inniheldur 23 næringarefni og magn næringarefna í hverju grammi er meira en í nokkru öðru grænmeti eða korni. Vegna þess að hveitikím er svo ríkt af næringarefnum, vítamínum, járni og trefjum er hægt að leggja að jöfnu u.þ.b. 30 g af hveitikími og 250 g af grænmeti sem eru góðar fréttir fyrir þá sem þurfa að auka magn grænmetis í fæðunni og ekki síður fyrir þá sem þurfa að skera niður neyslu á einföldum kolvetnum."
Nokkuð gott!
Ég geri nokkrar útfærslur af hveitikímsklöttum en ofan á þá set ég ýmislegt eins og skinku, pestó, tómatsósu, parmesan, salat, ferskt grænmeti, niðursoðið egg ofl.
Hveitikímsklattar
- á pönnu/í samlokugrilli:
Ég set 1 dl af hveitikími, kúmenfræ, sesamfræ og þau krydd sem ég vill (oftast salt, pipar og oregano) og blanda þessu í stórt glas/háa skál eða nestisbox. Ég brýt eitt egg út í og smávegis af vatni (þetta á að vera eins og þykkur hafragrautur), vatnsmagnið er bara slumpað en kannski 1-2 msk, gott að prófa sig áfram, þetta má ekki verða of þunnt og egg eru misstór.
Þessu hræri ég með gaffli og set út á heita pönnu og úr þessu fæ ég 2 klatta/sneiðar. Ég strái svo stundum parmesan yfir.
Sama með grillið - ég set þetta í George Foremanninn og læt þetta steikjast vel.
Einnig er hægt að gera þetta án eggja fyrir þá sem eru vegan. En þá mæli ég ekki með að steikja né setja í grill því þá helst þetta engan veginn saman. Hins vegar er hægt að nota BARA vatn og hafa deigið þá mun þurrara, það á rétt að klístrast saman. Það á að vera hægt að móta kúlur úr deiginu sem ég flet svo út, set á disk með sesamfræjum til að umlykja sneiðina með fræjum. Sneiðarnar eru lagðar á bökunarpappír á plötu og inn í ofn á 180°og bakað í um 25-30 mín. Þegar þetta er gert þá mæli ég með að stækka uppskriftina og prófa sig áfram með vatnsmagnið, það má alls ekki setja of mikið. Ég geri slatta af klöttum og frysti, svo er hægt að taka þetta með sér og rista í vinnunni.
Athugið að hveitikím verður að geymast í kæli!
Sumum finnst hveitikímsbragðið ekki gott. Mér finnst það ágætt en mér finnst nauðsynlegt að hafa kúmenfræin, þau gefa svo sterkt og gott bragð. Þetta er heldur bragðdauft án þeirra.
Maður fær líka soldið leið á þessu ef maður borðar mikið af þessu. Enda borða ég alveg venjulegt brauð líka..
No comments:
Post a Comment