Friday, February 8, 2013

Uppáhalds konfektið

Þessi uppskrift af konfekti er svo einföld að það er ekki fyndið.
Eftir að ég fékk þessa uppskrift frá Jónu fyrrum samstarfskonu minni á Mannréttindaskrifstofu sem fékk hana hjá kokkum Maður Lifandi, hef ég gert hana ótal oft þar sem hún er svo fljótleg og rosalega góð. 
Þessir konfektmolar (eiginlega bara súkkulaðikaka samt...) hafa slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað þá hjá mér. 

Þessi kaka er svona aðeins hollari en gengur og gerist en það er samt varla hægt að tala um hollustu hér miðað við súkkulaðimagnið... :)
Uppskrift:
Uppáhalds súkkulaðikonfektið
frá Maður Lifandi

300g suðusúkkulaði
1 og 1/4 dl kókosmjólk
200g hnetusmjör
125g kasjúhnetur
100g speltkex (t.d. frá Molenaartje, til í Nettó - annars er alveg hægt að nota bara venjulegt hveitikex)

Súkkulaðikrem ofan á: 
250g suðusúkkulaði
1 og 1/4 dl kókosmjólk

Byrjið á því að bræða súkkulaði og kókosmjólk saman á vægum hita. Takið pottinn af hellunni. Bætið hnetusmjörinu því næst við og hrærið vel. Hakkið hnetur og kex í matvinnsluvél og hellið síðan út í pottinn og blandið við súkkulaði/hnetusmjörsblönduna. Hellið í ferhyrnt skúffukökuform (það á að leggja bökunarpappír í formið áður en deiginu er hellt út en ég geri það ekki alltaf, það er þó þægilegra). Setjið inn í ísskáp og kælið í amk. 1 klst. 
Kremið: Bræðið súkkulaði og kókosmjólk saman og hellið yfir deigið. Fínt að setja þetta svo aftur inn í ískáp. Skerið í konfektbita þegar kremið hefur harðnað. 

Þetta er fullkomin kaka til að fara með í saumaklúbb, hafa í veislum osfv því það kemur slatti úr þessari einföldu uppskrift og svo er þetta svona ekta "allra" eftirréttur.

No comments: