Monday, June 11, 2012

Besta bananabrauðið



Þetta hér er langbesta bananabrauðið sem ég hef smakkað... svo er það líka hollt og ekki stútfullt af sykri eins og mörg bananabrauð eru (sem mér finnst algjör óþarfi því bananarnir gera brauðið svo sætt hvort sem er).
Uppskriftina hef ég gert oft og er hún frá CafeSigrún en vefinn hennar hef ég notast við síðan ég byrjaði að baka oftast í hollari kantinum en það var um mitt árið 2008 minnir mig. 
Fyrir það hafði ég verið í Hússtjórnarskólanum og lært að baka fullt af gamaldags kökum sem innihéldu endalaust af sykri og hveiti. 
Ekki að ég hafi fengið ógeð af því.. þvert á móti leið mér ótrúlega vel í líkamanum önnina sem ég var í Húsó, þó að þar hafi ég alltaf borðað heitan hádegismat og sætt bakkelsi í kaffinu á hverjum einasta degi (afrakstur eldhúshópsins þann morguninn). Mér hefur ekki liðið jafn vel líkamlega og síðan ég var í Húsó þrátt fyrir miklu "hollara" matarræði síðan þá.. já þetta er mér dulin ráðgáta.


Ég bakaði bananabrauðið á sunnudegi til að hafa sem nesti út vikuna. Ég skar það í sneiðar og setti hverja og eina í plast og inní frysti. Setii í örbylgjuofninn í 30 sek og brauðið var sem nýtt.


Besta bananabrauðið
ala CafeSigrún (pínu breytt)


1 egg
90 g hrásykur (ég notaði um 60g og mér fannst ekki vanta sætu)
2 msk agave sýróp (ég notaði hunang, átti ekki agave)
5 þroskaðir bananar
1 msk kókosolía
200 g heilhveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
25 g haframjöl
+ 25 g haframjöl til að strá yfir
+ saxaðar hnetur ef vill


Byrjað er á því að hræra eggið lauslega saman við sykurinn - gott að setja smá og smá útí í einu.
Bananarnir eru maukaðir með gaffli og þeim hrært útí eggjablönduna ásamt olíunni og agave. 
Í stóra skál eru þurrefnunum blandað saman. Hér bætti ég við um 2 msk af söxuðum heslihnetum.
Bananablöndunni er svo hellt útí stóru skálina og varlega blandað saman við þurrefnin, það á að velta þessu rólega.
Klæðið brauðform með bökunarpappír (ég notaði einnota formkökuform sem til eru í matvöruverslunum) og hellið deiginu útí. Stráið haframjölinu yfir.
Hjá Sigrúnu stendur að það eigi að baka brauðið í 40-45 mín. Ég held hins vegar að maður verði að meta það út frá stærð banananna þar sem brauðið mitt var ennþá blautt í miðjunni eftir 45 mín. Ég hafði það því í um 65 inní 180° heitum ofni. Ég mæli með að stinga tannstöngli í miðju brauðsins (þar sem það er þykkast) og ef hann kemur alveg hreinn út, þá er brauðið reddí.


Borðist frekar heitt og með smjöri :)

No comments: