Tuesday, February 26, 2013

Gamli bærinn minn

Fyrst ég er að fara út eftir akkúrat tvær vikur finnst mér upplagt að sýna ykkur nokkrar myndir frá bænum mínum í Washington fylki, Poulsbo. Þetta er lítill og fallegur bær sem fundinn var af Norðmönnum og má sjá skírskotun í Noreg (sérstaklega norska fánann) út um allt í miðbænum. Ég bjó semsagt í "Pálsbæ" sem mér finnst afar skemmtileg tilviljun :) Þarna eyddi ég einu skólaári í North Kitsap High School þegar ég var 17-18 ára og átti svo yndislega frábæran tíma hjá besta fólki sem hægt var að hugsa sér að lenda hjá. Myndirnar eru frá heimsókninni okkar Eyþórs í nóvember 2011.

Eyþór var yfir sig hrifinn af krúttlega bænum, hann sagði að þetta væri ekta svona lítill bær eins og í amerískum sjónvarpsþáttum (Dawson's creek t.d. ;)
Á röltinu niðri við Liberty Bay sem gatan mín liggur við og einnig aðalgata bæjarins í miðbænum.
..og hér hefur ljósmyndarinn snúið sér við og náð þessari fallegu mynd :)
Gamla húsið mitt. Ég var með heila hæð útaf fyrir mig, herbergið mitt var svona 30 fermetrar og ótrúlega kósý.
Niðri á höfn eru fullt af bátum.
Við götuna mína, Fjord Drive. Við vorum með útsýni yfir vatnið (sjóinn) og ef maður labbar út götuna þá er maður kominn niðrí miðbæ, að aðalgötu bæjarins; Front Street.
Það var akkúrat Holiday Fair í gamla skólanum mínum þegar við vorum í heimsókn þannig að Eyþór fékk að sjá skólann og ég nældi mér í karamellu cupcake...

Friday, February 22, 2013

Þrjár kökur

Bara svona af því að grái hversdagleikinn inniheldur lítið myndrænt um þessar mundir, þá datt mér í hug að sýna ykkur myndir af því sem mér finnst alltaf gaman að skoða myndir af. Giskið einu sinni...

Þessa súkkulaðiköku (bara klassísk skúffukaka með smjörkremi) gerði ég í dag fyrir 14 ára afmælisstrákinn minn (besta bróður sem hægt er að hugsa sér) og elsku ömmu og afa sem eiga 55 ára brúðkaupsafmæli í dag. Það voru allir voða hrifnir af Kit-Kat grindverkinu ;)
Þessa nutellaköku gerði ég um daginn þegar við vorum að passa litla bróður. Við Eyþór og Páll Orri borðuðum hana í kvöldkaffi...ok miðnæturkaffi.
Þessi kaka er án gríns ein allra besta kaka sem ég hef smakað. Karamellufíklar - farið í Passion bakaríið í Álfheimum, þar er hægt að fá þennan unað! Við Eyþór og Páll Orri erum komin með hefð, að fara þangað áður en við förum í Laugardalshöllina að horfa á Keflavík verða bikarmeistarar.. við viljum meina að þetta sé orðið happa :)

Tuesday, February 19, 2013

Kúrbítsbrauð


Ég mundi rétt í þessu þegar ég er með kúrbítsbrauðið í ofninum að ég ætlaði að setja uppskriftina hingað inn. Ég hreinlega verð þar sem ég elska þetta brauð! Ég gerði það í janúar og án gríns, ég fékk mér 1-2 sneiðar á hverjum morgni í svona viku.. (sem er ólíkt mér þar sem ég fæ mér yfirleitt ekki það sama hvern einasta dag, oftast er það hafragrautur, búst, flatkökur, soðin egg, morgunkorn eða einhver blanda af þessu). Það er mjög þægilegt að skella þessu í sig þegar maður er á hraðferð á morgnana og ekki skemmir fyrir hvað brauðið er saðsamt. Einnig geymist það mjög vel sökum mikils vatnsmagns í kúrbítnum en ég geymdi það inni í ískáp síðast og það var mjög fínt. 
Brauðið er frekar blautt í sér en þannig finnst mér svona "sætari" brauð vera best. Sama finnst mér um bananabrauð, ég fíla engan vegin þurr brauð en uppáhalds bananabrauðsuppskriftina mína má finna hér.


Kúrbítsbrauð
uppskrift úr bókinni Hollt nesti heiman að

65g pekahnhetur/valhnetur saxaðar gróft
185 dl olía
1 tsk vanilludropar
1 dl hunang
3 egg
140g gróft spelt
140g fínt spelt (ég átti bara heilhveiti og notaði því 280g af því)
1/2 tsk matarsódi
1 og 1/2 tsk lyftiduft
1/2-1 tsk kanill (ég set að sjálfsögðu alltaf meira en stendur :)
350g kúrbítur rifinn
2 og 1/2 tsk sítrónubörkur
dass af salti

Léttristið hneturnar á pönnu. Hrærið olíu, hunangi og vanillu vel saman (ég notaði handpísk) og bætið við eggjum, einu og einu í einu þangað til blandan verður létt og ljós. Blandið saman þurrefnum í annarri skál og hellið svo yfir í blautefnaskálina. Rífið kúrbítinn niður í strimla með rifjárni og blandið saman við með sleif ásamt örlitlu salti, sítrónuberki og söxuðum hnetum. Veltið þangað til allt hefur blandast vel saman.

Hellið í brauðform (ef þið eigið ekki sílíkonform myndi ég mæla með að setja smjörpappír í formið áður) og bakið í um eina klst. við 180°. Ég sting alltaf tannstöngli í miðjuna til þess að athuga hvort deigið festist við, þið munið að ofnar eru mismunandi...

Wednesday, February 13, 2013

Mánuður..

Í dag er akkúrat mánuður þangað til við Eyþór flytjum til næsta áfangastaðar okkar. 
Við munum eyða nokkrum mánuðum í einni af uppáhalds borgunum mínum; Seattle en þar mun önn númer tvö af mastersnáminu mínu fara fram. Ég er semsagt að fara stunda nám við University of Washington í eina önn og ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá er ég við það að pissa í mig úr spenningi! Frá því að ég var 17 ára skiptinemi í Poulsbo sem er lítill bær 45 mín (einni ferjuferð) frá Seattle hefur mig langað að stunda nám við UW og nú er komið að því :)
Háskóla campusinn er svo fallegur og veðrið á vorin/sumrin á þessum stað er fullkomið fyrir mig, ekki of heitt og voða lítið rok (fyrir utan "einstaka" rigningardaga..) Get ekki beðið eftir að deila með ykkur myndum frá borginni.

Eftir að hafa búið rétt hjá Seattle í eitt ár hef ég heimsótt fólkið mitt og borgina 3svar sinnum eftir að ég kom heim úr skiptináminu. Í nóvember 2011 kom Eyþór með mér og hann varð einnig yfir sig hrifinn af borginni og líka af litla bænum og fólkinu sem mér þykir svo vænt um. 
Ég setti inn myndir frá ferðinni okkar á facebook en það sakar ekki að deila þeim aftur hér er það? :) Hér eru nokkrar frá Seattle. 


Ég man enn fyrstu ferjuferðina mína. Aðkoman að borginni er svo falleg. Þennan dag var þó mikil þoka en útsýnið var samt flott.


Public Place Market (með hressu fiskisölunum sem henda fisknum á milli sín og syngja.. hafiði ekki heyrt um þá? :)


 Space Needle. Hef farið nokkrum sinnum upp í hana og finnst alltaf jafn gaman að athuga hvort fjallið sjáist (sjá mynd fyrir neðan - það sést bara visst marga daga á ári)
Mount Rainier sést hér til hægri.

Campusinn á University of Washington


Útsýnið frá Capitol Hill sem er eitt af uppáhalds hverfunum mínum í borginni.

Sjáumst eftir mánuð!

Friday, February 8, 2013

Uppáhalds konfektið

Þessi uppskrift af konfekti er svo einföld að það er ekki fyndið.
Eftir að ég fékk þessa uppskrift frá Jónu fyrrum samstarfskonu minni á Mannréttindaskrifstofu sem fékk hana hjá kokkum Maður Lifandi, hef ég gert hana ótal oft þar sem hún er svo fljótleg og rosalega góð. 
Þessir konfektmolar (eiginlega bara súkkulaðikaka samt...) hafa slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað þá hjá mér. 

Þessi kaka er svona aðeins hollari en gengur og gerist en það er samt varla hægt að tala um hollustu hér miðað við súkkulaðimagnið... :)
Uppskrift:
Uppáhalds súkkulaðikonfektið
frá Maður Lifandi

300g suðusúkkulaði
1 og 1/4 dl kókosmjólk
200g hnetusmjör
125g kasjúhnetur
100g speltkex (t.d. frá Molenaartje, til í Nettó - annars er alveg hægt að nota bara venjulegt hveitikex)

Súkkulaðikrem ofan á: 
250g suðusúkkulaði
1 og 1/4 dl kókosmjólk

Byrjið á því að bræða súkkulaði og kókosmjólk saman á vægum hita. Takið pottinn af hellunni. Bætið hnetusmjörinu því næst við og hrærið vel. Hakkið hnetur og kex í matvinnsluvél og hellið síðan út í pottinn og blandið við súkkulaði/hnetusmjörsblönduna. Hellið í ferhyrnt skúffukökuform (það á að leggja bökunarpappír í formið áður en deiginu er hellt út en ég geri það ekki alltaf, það er þó þægilegra). Setjið inn í ísskáp og kælið í amk. 1 klst. 
Kremið: Bræðið súkkulaði og kókosmjólk saman og hellið yfir deigið. Fínt að setja þetta svo aftur inn í ískáp. Skerið í konfektbita þegar kremið hefur harðnað. 

Þetta er fullkomin kaka til að fara með í saumaklúbb, hafa í veislum osfv því það kemur slatti úr þessari einföldu uppskrift og svo er þetta svona ekta "allra" eftirréttur.

Wednesday, February 6, 2013

Eitt ár

Í lok janúar fögnuðum við fyrsta ári Þórbergs Erikssonar sem er lítill vinur okkar Eyþórs en foreldrar hans eru vinir okkar. 

Afmælisbarnið var ekki í pós stuði þegar mamma hans rétti honum ólífuolíusmjörið (nema þetta sé það nýjasta í barnapósum, hvað veit maður svosem.. :)
Drengurinn var alsæll að komast inn í skáp.  
Prinsinn umvafinn vinkonum.
 Ég spilaði afmælissönginn á harmonikku (eða ekki..en ég get oftast ekki staðist hljóðfæri, verð alltaf að prófa að glamra aðeins)
Þórbergur að skora fyrstu körfuna sína en við gáfum honum körfubolta og spjald (jebb ég veit, eðlileg gjöf fyrir 1árs barn..haha)