Monday, January 23, 2012

Hollara rúsínubrauð
Sunnudagsbaksturinn innihélt þetta rúsínubrauð og hveitilausar súkkulaðibitasmákökur. Ég mætti svo með það í vinnuna í dag ásamt hummus og áleggi (ostaskerinn fékk meirasegja að fljóta með þar sem við eigum engan hér í vinnunni). Ein af tveimur óléttu samstarsfkonum mínum var að hætta í dag í bili þar sem barnið fer bráðum að láta sjá sig og það var notalegt að sitja saman í hádeginu og gæða okkur á brauðinu. Ein sagði meirasegja "þú veist ekki hvað það er mikið hrós að mér finnist þetta brauð gott" og svo fræddi hún mig um að hún vill helst bara franskbrauð og vill oftast ekki sjá heilhveiti. 

Það tók enga stund að vippa í þetta brauð, en ég baka aðeins þannig brauð: Einföld, aðeins hollari og alltaf án gers. Enginn sykur, engin olía eða smjör, þannig vil ég hafa þau. Og helst með fullt af fræjum!

Rúsínubrauð
-uppskriftin er aðlöguð frá ýmsum uppskriftum

5 dl heilhveiti
1 dl haframjöl
1/2 dl semsamfræ
1/2 dl ristuð sólblómafræ (mér finnst sólblómafræ svo miklu betri þegar það er aðeins búið að steikja þau á pönnu en það þarf að sjálfsögðu ekki)
4 msk kókosmjöl (ég geri það sama og við sólblómafræin)
1-2 tsk kanill
1 og 1/2 tsk lyftiduft
2-3 lúkur rúsínur (magnið fer bara eftir smekk)
5 dl AB-mjólk
1 stappaður banani

Þurrefnunum blandað vel saman með sleif. Bananinn stappaður í annarri skál og AB mjólkinni blandað saman við. Blautefnunum síðan hellt í þurrefnaskálina og blandað saman. Rúsínurnar svo settar í lokin.

Þetta fer svo inn í ofn á 180° í um 45 mín. Ég notaði hringlaga sílíkonform, bara af því að sílíkonform eru svo ótrúlega þægileg til notkunar, ég átti ekki tvö brauðform og deigið var eiginlega of mikið fyrir eitt lítið einnota brauðform sem maður fær útí búð.

7 comments:

hildur björk said...

mmmmmm!! ég verð að prófa að baka svona. hvar kaupir maður svona sniðugt sílíkonform?

Valgerður said...

eftir samtal okkar í gær þá veit ég allavega hvert ég get farið með afganga.. ég er bökunaróð en ég nenni ekki alltaf að eiga þetta í marga daga eftir á :)

sílíkonform eru farin að vera til útum allt bara, jafnvel í nettó og bónus. ég man bara ekki hvar ég fékk þetta..

EddaRósSkúla said...

Mmm girnilegt! Fyndið hvernig þetta er á disknum haha

Valgerður said...

haha já einmitt, maður er alltaf að reyna að vera svo artý í þessum matarljósmyndum ;)

Anonymous said...

mmmm þetta verð ég að prófa!
-heiða

Heiða Rut said...

Ég prófaði þetta í dag og það var ótrúlega gott :)

Valgerður said...

jeijj ánægð með það Heiða :)