Wednesday, August 8, 2012

Glútenlausar vanillumúffur með súkkulaðikremi


Ég á ennþá smá kókoshnetuhveiti sem ég keypti í Kosti fyrr um árið. Það endist vel ef maður geymir það inni í ísskáp. Ég hef einu sinni áður sett inn uppskrift með kókoshnetuhveiti en hveitið hefur þá eiginleika að draga vel í sig allan vökva og því þarf maður að nota lítið magn af mjöli en mikið magn af t.d. eggjum. Þar sem ég á oftast eggjahvítubrúsa þá verður þetta því voða hollt: lítið hveiti og fullt af eggjahvítum :)

Ég hef aldrei áður gert vanillu cupcakes en mér finnst þær alltaf góðar þegar ég hef smakkað þær. Svo fannst mér þær passa best við súkkulaðimúsina sem ég hafði gert deginum áður, en mig langaði að prófa að nota það sem krem. Það kom mjög vel út, en athugið að þetta er ALLS EKKI neitt líkt djúsí smjörkremi. Mig grunar að þeir sem eru ekki vanir að borða stundum aðeins hollara góðgæti, munu kannski ekki alveg samþykkja þetta sem "krem". En góð var músin þó og held ég að flestir myndu fíla þetta sem súkkulaðimús með berjum og rjóma. Ég fékk svona súkkulaðimús hjá Herdísi vinkonu minni í haust og við settum hana ofan á hafrakex sem var ótrúlega gott!


Vanillumúffur með kókoshnetuhveiti
pínu breytt uppskrift frá Comfy Belly - gerir um 8 stk.

1,25 dl kókoshnetuhveiti (fæst t.d. í ameríska Kosti og í sumum heilsudeildum stórverslanna)
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
8 eggjahvítur (eða 4 egg)
0,8 dl kókosolía (í fljótandi formi)
1 dl hunang/agave sýróp
vanilla í einhverju formi (vanilludropar/sykur) - ég setti örugglega 2 tsk til að fá mikið bragð

Ég blandaði þurrefnunum saman fyrst í matvinnsluvél og svo blautefnunum og blandaði vel (mér finnst gott að nota matvinnsluvélina til þess að slétta út hveitiklumpana). Sett í pappírsform og svo ofan í sílíkonform til þess að fá flottu lögunina. Bakað við 180° í um 20 mín.

Súkkulaðimús/súkkulaðikrem
frá Pure Ebbu

1 hæfilega þroskað avókadó
1 þroskaður banani
4 msk fljótandi kókosolía
3 msk agave sýróp
3 msk kakó
skvetta af vanilludropum & salti

Blanda öllu í matvinnsluvél/blender og voila! 
Reyndar er gott að setja þetta inn í ísskáp í smá tíma til þess að leyfa þessu að stífna aðeins.

3 comments:

Hildur Björk said...

mmmm girnó! langar að smakka þessa mús :)

Ásdís said...

Eggjahvítubrúsi??? What the???

Lítur mjög vel út!

Valgerður said...

já Hilla, músin er snilld - og tekur eeenga stund! (en þér finnst náttla matvinnsluvél svo mikið vesen.. hehe :)

En já Ásdís, það var byrjað að selja eggjahvítur í brúsa í nokkrum verslunum í haust, algjör snilld. Það eru um 33 eggjahvítur í hverjum brúsa og þetta dugir minnir mig í um 2 vikur.