Monday, May 21, 2012

Eggjahvítumúffur

Eggjahvítumúffur eru algjör snilld - eiginlega ommiletta "on the go"



Ég er farin að gera eggjahvítumúffur ansi oft þar sem Eyþóri finnst gott að grípa með sér morgunmat en ég borða þær eiginlega alltaf sem millimál, mér finnst mjög fínt að fá mér svona 2 plús ávöxt seinnipart dags þegar ég er svöng. Þær eru fljótgerðar, rosalega hollar og sniðugar fyrir þá sem nenna ekki að elda sér ommilettu alltaf þegar á að nota eggjahvíturnar. Ég nota oftast uppskriftina sem ég fann í fyrra á Heilsupressunni hjá Svövu Rán (sem ég finn ekki akkúrat núna og nenni ekki að leita - ég seivaði hana í tölvuna fyrir löngu). Það er fínasta grunnuppskrift, fáránlega auðveld og tekur enga stund að hræra í þetta.

Eggjahvítumúffur
8 eggjahvítur
200 g kotasæla
1 msk kókoshnetuhveiti eða 2 msk annað hveiti (ég nota kókos af því að ég á það og að það þarf minna af því en þær verða örugglega alveg eins með venjulegu hveiti/spelt)
1 tsk lyftiduft
hvaða krydd sem er


Þessu er öllu hrært saman í skál og ATHUGIÐ að "deigið" er rosalega þunnt! Maður trúir varla að þetta eigi að vera svona en hafið engar áhyggjur :)


Múffurnar eru svo bakaðar í ofni við 180-200° (hversu dökkar þið viljið hafa þær) í amk. 30 mín en ég hef þær bara þangað til þær eru orðnar vel dökkar, það tekur oftast aðeins lengri tíma en hálftíma.

Ég nota alltaf sílíkon möffinsform, það er örugglega erfitt að nota pappaform, mig grunar að deigið myndi leka útum allt...


Svona er hægt að hafa þær einfaldar en ég set alltaf eitthvað gums í.


Síðast gerði ég 2x uppskrift, í annan skammtinn setti ég:
- Skinku
- Mexíkó-ost
-Paprikukrydd
-Oreganó
- Salt&pipar


Í hinn skammtinn setti ég:
- Tómata
- Parmesan ost (í deigið og líka ofan á í lokin)
- Basil


Þær geymast ótrúlega lengi í nestisboxi inní ísskáp, ég set þær svo örskamma stund í örbylgjuna en það er óþarfi, þær eru fínar líka kaldar. 
(Veit ekki hvort þær haldist góðar ef þær eru frystar - ég hef aldrei þurft þess því við klárum þær eiginlega alltaf á rúmri viku)

5 comments:

Bergey said...

namm..en sniðugt og girnilegt! ég verð hreinlega að prufa að baka þetta um helgina sem nesti fyrir vinnuvikuna!

ester said...

Vaaá ég þarf að prófa þessar. Elska svona uppskriftir sem maður getur bætt allskonar í.

Valgerður said...

já nákvæmlega :)

ég geri einmitt líka hafragrautsmúffur þar sem hægt er að setja hvað sem er útí, set kannski uppskriftina af því líka bráðum

Arna said...

gerði þessar í dag og þær eru rosa góðar...! takk fyrir uppskriftina... mun pottþétt gera þær aftur... :)

Valgerður said...

snilld, gaman að heyra það :)