Saturday, June 29, 2013

San Francisco 2. og 3. dagur

Golden Gate brúin fræga var áfangastaður okkar á öðrum degi okkar í borginni. Þrátt fyrir jákvætt viðhorf okkar þá er það ekki flúið að veðrið spilar alveg helling inn í þegar maður er að ferðast. Við rétt sáum glitta í brúnna en við höfðum það þó í okkur að ganga yfir og kíkja fram yfir handriðið. Það var frekar ógnvekjandi.

Einnig heimsóttum við Haight-Ashbury hverfið en þar varð hippamenningin til um “ástarsumarið 1967”. Nú er þar krökkt af hipsterum. Það hverfi leist okkur hvað best á en þar eru margar áhugaverðar second hand verslanir og veitingar- og kaffihús. Þar eru einnig mikið af skrautlega lituðum húsum í Viktoríustíl en Valgerður var afar hrifin af þeim og einnig af fjölbreytileika húsanna um alla borg.

Síðasta daginn okkar fórum við loksins niður í miðbæinn, þið vitið, þar sem risastór Target, Ross og Forever 21 eru ásamt fínu búðunum og háhýsunum. Það var ekki að heilla okkur þannig að við röltum aðeins lengra og duttum inn á kínahverfið en Chinatown í San Francisco er það elsta í allri Norður Ameríku og mig grunar að það sé það flottasta. Búðirnar eru þó alltaf jafn einhæfar og túristalegar en okkur fannst gaman að sjá byggingarnar og stemninguna. Ef maður labbar aðeins lengra þá tekur við Little Italy en þar fengum við okkur síðdegiskokteil og sátum úti en veðrið var orðið mun betra akkúrat þegar við vorum að fara frá borginni. 

Um kvöldið bauð Patricia, konan sem við gistum hjá, okkur í kvöldmat á pínulitlum pizzastað í hverfinu hennar sem er samkvæmt staðarblöðunum með bestu pizzuna í borginni. Við röltum síðan yfir á lestarstöðina og tókum næturflug á næsta áfangastað okkar, Austin Texas.
Valgerður var hálfbuguð af lofthræðslu þegar við löbbuðum yfir Golden Gate brúnna og ekki varð hún hressari eftir að hafa rekist á þetta. Það var gerð heimildamynd um fólk sem hefur ákveðið að enda líf sitt með því að hoppa fram af brúnni. 
Valgerður varð hins vegar mun hressari þegar hún rakst á þessi fallegu hús í Haight-Ashbury hverfinu.

Við tókum símamyndir á litla pizzastaðnum en hér eru Patricia og nýja vinkona okkar frá Tælandi en hún og ameríski eiginmaður hennar leigja út íbúðir fyrir ferðamenn þar í landi. Patricia ætlar að fara til Tælands í desember og þau ætla að skipta um heimili í mánuð eða svo og þau vildu kynnast aðeins áður en þau ættu í heimilisskiptum. 
Hún var ekkert að grínast með chilikryddið en eftir að hafa hellt því yfir alla sneiðina bað hún þjóninn um að koma með hot sauce því þetta var ekki nógu sterkt.
Fyrir utan pizzustaðinn góða með hressu vinkonu okkar sem við gistum hjá.

Kv. frá Suðurríkjunum!

P.s. frá Valgerði: Ég verð nú að segja að mér finnst soldið leiðinlegt að enginn af þeim 150 manns sem skoðuðu síðustu færslu ýtti á kommentatakkann.. það er alveg sérstaklega gaman að fá komment þegar maður er langt í burtu frá öllum vinum og fjölskyldu. Það væri nú gaman ef Íslendingar væru aðeins meira eins og Ameríkanar, og sérstaklega Suðurríkjabúar sem við erum að umgangast þessa dagana, maður er í sjokki á hverjum degi hvað allir eru næs hérna! Þarf ekki mikið til þess að gleðja mann :)

Thursday, June 27, 2013

San Francisco dagur 1

Við afsökum fjarveruna en hana má skýra með því að litli bróðir minn kom í heimsókn til okkar til Seattle síðustu vikuna okkar í borginni. Síðustu dagarnir mínir í náminu voru mjög stressandi en ég þurfti að klára 20 bls. ritgerð áður en hann kom. Það hafðist og við áttum yndislega viku með litla bróður í borginni og í Poulsbo í rosa góðu veðri. Myndir frá heimsókninni koma eflaust ekki inn fyrr en eftir að við komum heim þar sem við erum núna á 3ja vikna ferðalagi. Við ætlum að vinna okkur frá vesturströndinni og yfir til New York þar sem við ætlum að vera í viku áður en við fljúgum heim.

Við sitjum hér í king size rúmi á vegahóteli í Texas, nýbúin að ná okkur í pizzu og nammi og erum að horfa á NBA draftið og því var tilvalið að setja inn myndir frá ferðinni hingað til.
Ég á ekki mikið í þessari bloggfærslu þar sem Eyþór tekur langflestar myndirnar og í þetta sinn náði ég að plata hann til þess að skrifa smá texta um dvöl okkar í San Francisco:

Það er óhætt að segja að við höfðum beðið lengi eftir því að heimsækja San Francisco. Okkur hefur dreymt um að búa í borginni sem að okkar mati átti að hafa allt til brunns að bera. Það var áður en við heimsóttum borgina. Væntingarnar voru miklar og veðrið í ferðinni okkar var ekki upp á marga fiska. Þoka, rok og smá rigningarúði. Við ákváðum að láta það ekki á okkur fá og héldum okkar striki. Í þessari rúmlega þriggja daga ferð okkar náðum við að sjá ansi margt og kynnast borginni nokkuð vel.

Við heimsóttum á fyrsta degi Mission hverfið sem var nokkuð áhugavert en það sló okkur strax hvað borgin var skítug og sóðaleg. Kannski var Seattle bara svona hrein og snyrtileg? En það var strax augljóst að San Francisco er ólík öllum þeim borgum sem við höfum heimsótt áður. Þarna er góð blanda af fólki af öllum uppruna og mikið af skrautlegum karakterum. Það sáum við glögglega þegar komið var í Castro hverfið þar sem samkynhneigðir halda til að mestu leyti. Þar sáust vart tveir karlmenn ganga saman án þess að þeir væru að leiðast. Það gerði svo daginn fyrir okkur að sjá nektarsinna á vappi með litla gyllta sokka fyrir slátrinu.

Eins og sönnum túristum sæmir þá fórum við niður á bryggju 39 þar sem sjá má  hið fræga Alcatraz fangelsi úti á flóanum. Þar var allt morandi í ferðamönnum í fyndnum bolum og hreinlega of þröngt á þingi fyrir okkar smekk.

Við höfum gaman af því að gista hjá heimamönnum og að þessu sinni var gestgjafi okkar ein eldhress og áttræð. Hún var í alla staði frábær. Hún sótti okkur á lestarstöðina og var búin að undirbúa fyrir okkur lista með öllum þeim upplýsingum sem hún taldi nauðsynlegar. Sú gamla hefur marga fjöruna sopið og sagði okkur margar áhugaverðar sögur af ferðalögum sínum um heiminn. Það er óskandi að maður verði svona lífsglaður á hennar aldri. 

Lesbíupar með íslensku fitness klippinguna.
Ófá tónleikaveggspjöld hafa verið heftuð á þennan rafmagnsstaur fyrir utan Roxie Theater í Mission hverfinu.
Svona var útsýnið okkar þegar við borðuðum hádegismat í Castro hverfinu.
Fyrsta kvöldið prófuðum við í fyrsta skipti eþíópískan mat en þjóðarrétturinn er kjöt og grænmeti í nokkuð sterkri sósu. Maður rífur bita af injera brauðinu sem er á hinum disknum og notar brauðið og fingurna til að skófla matnum upp í sig. 
Þessi var mjög hress. Hann var með dúndrandi hip hop tónlist í gangi og dillaði sér við músikina en pósaði þó þegar hann þaut framhjá okkur.
 Það var ansi grámyglulegt þegar við horfðum yfir á eyjuna sem hýsti hið alræmda Alcatraz fangelsi. Því miður fengum við ekki tækifæri á að skoða það þar sem maður þarf að panta miða nokkrum vikum áður og við skipulögðum ferðina okkar nokkrum dögum áður en við héldum af stað.
Pier 39.
Sú gamla var alltaf með morgunverð handa okkur.

Thursday, June 20, 2013

Vancouver, Kanada

Skólinn bauð okkur stelpunum í prógramminu í helgarferð til Vancouver. Við Anne frá Þýskalandi og Natalia frá Þýskalandi/Úkraínu fórum ásamt Mark sem er yfir skiptiprógramminu í road trip yfir til Kanada. Við gistum á campus University of British Columbia og vorum í raun bara í borgarferð, skoðuðum nokkur hverfi borgarinnar, fórum í dinner og brunch og svo kíktum við stelpurnar út á lífið sem er ansi fjörugt í borginni þar sem ein löng gata hýsir flesta pöbba og klúbba borgarinnar, afar hentugt. Við skoðuðum einnig Indjánasafn en það fannst okkur áhugavert þar sem tvær okkar vorum í kúrsum sem fjölluðu um sögu Indjánanna norð-vestur Norður-Ameríku heimsálfunnar. 

Campusinn var mjög fallegur með útsýni yfir sjóinn og fjöllin.
Los Pollos Hermanos.. aðdáendur Breaking Bad ættu að þekkja þetta.

Sunday, June 16, 2013

Portland dagur 2

Alltaf þegar við ferðumst til nýrrar borgar, þá reynum við að fara í önnur hverfi en miðborgina til að komast aðeins burt frá aðal túristasvæðinu. Á sunnudeginum langaði okkur í brunch og enduðum á því að fá einn besta ameríska morgunmat hingað til í Bandaríkjunum. Við keyrðum í Hawthorne hverfið sem er semi "hipstera hverfi" borgarinnar.. æj þið vitið hvað ég meina, fullt af vintage - og thrift shops, skrítnum veitingastöðum og ungu fólki. Oftast eru þetta líka fyrrum eða núverandi innflytjendahverfi. Ef einhverjum finnst jafn gaman og okkur að heimsækja svona hverfi, þá megiði sko alveg hafa samband ef þið annaðhvort viljið meðmæli eða mælið með skemmtilegum hverfum í ýmsum borgum hér í USA en við erum að fara heimsækja nokkrar borgir á næstunni, byrjum á San Francisco næsta laugardag!

En aftur að Hawthorne hverfinu.. við vorum í voða litlu myndatökustuði þennan daginn en hér fyrir neðan eru þó skemmtileg hús og flottir skór.. :)

Annars er ein mynd frá Chinatown sem fékk að laumast með, getiði hver!



Portland dagur 1

Fyrri daginn í Portland löbbuðum við miðbæinn endilangan eins og maður gerir oftast fyrsta daginn í nýrri borg. Við fórum að sjálfsögðu í Powell's Books sem er stærsta bókabúð í heimi, byggingin nær yfir heila húsalengju (block). 

Síðan var gerð tilraun til þess að smakka á hinum heimsfrægu Voodoo kleinuhringjum þar sem vinsælasti kleinuhringurinn er með beikoni ofan á.. og svo eru alls konar skrítnar týpur í boði (sem passar vel við borgina þar sem þetta er algjör hippaborg og slagorð borgarinnar er víst "Keeping Portland weird"). Röðin í Voodoo Doghnuts var hins vegar aðeins of löng fyrir okkur Íslendingana til þess að nenna að standa í henni en við höfum tekið eftir því að Ameríkönum finnst ekkert mál að bíða í röðum fyrir utan veitingastaði á meðan við drífum okkur út um leið og við heyrum "það er um hálftíma bið."

Um kvöldið var okkur boðið í kvöldmat til Andrey og Olgu sem eru vinahjón Anne, þýsku vinkonu minnar úr UW sem var akkúrat líka í Portland þessa helgi. Anne var áður skiptinemi í Valencia á Spáni þar sem hún kynntist Andrey sem býr í Portland. Þar áttum við áhugavert spjall, borðuðum góðan mat og enduðum kvöldið á að fræðast um Monsanto og spillinguna sem á sér stað í matvælabransanum hér í Bandríkjunum með því að horfa á Food Inc en það var vel við hæfi í þessari hippa/umhverfissinuðu borg.

Langa röðin fyrir utan hina margfrægu kleinuhringjabúð.
Þessar nenntu heldur ekki að bíða í röðinni eftir kleinuhringjum.