Thursday, February 23, 2012

Karamellukaka


Þessa bakaði ég síðustu helgi og sló svona líka í gegn hjá fjölskyldumeðlimum sem fengu sér sneið með bollukaffinu á sunnudaginn.
Uppskriftina fékk ég í nýjasta blaði Gestgjafans sem maðurinn kom færandi hendi einn daginn (hann kann að velja gjafir þessi). Í Gestgjafanum segir að uppskriftin sé sú sem Minnie í The Help bakaði alltaf þegar hún átti erfiða daga.. ég man hins vegar ekkert eftir því í myndinni en ljósmyndin af kökunni var nóg til þess að mig langaði að prófa (ok og kannski líka að ég er sjúk í karamellu)

Þessi er svo langt frá því að vera holl.. enda er ég alls ekkert hollustufrík þó mér finnist skemmtilegra að baka krefjandi kökur - semsagt að gera kökur úr náttúrulegu eða aðeins hollara hráefni og gera hana ljúffenga, það er áskorun sem mér finnst gaman að takast á við.
En stundum vill maður bara einfaldleikann, að þurfa ekki að kaupa endalaust af dýrum hnetum, þurrkuðum ávöxtum og slíku. Mamma átti t.d. allt í þessa köku og því var búðarferð óþörf.

Karamellukaka
(úr Gestgjafanum)

Botnar:
2 dl mjólk
180 g smjör
300 g hveiti
1 og 1/2 tsk lyftiduft
3 egg
200 g sykur
1 tsk vanilla

Karamellukrem:
70 g smjör
250 g púðursykur
1 dl rjómi
200 g flórsykur
40 g mjúkt smjör

Hitið smjör og mjólk saman í potti við vægan hita (ekki sjóða). Blandið saman hveiti og lyftidufti í skál. Þeytið egg og sykur saman í hrærivél/með handþeytara þannig að blandan verði létt og loftkennd. Setjið hveitið út í og svo mjólkurblönduna og látið vélina ganga á minnstum hraða á meðan. Setjið vanilludropa út í og hrærið örlítið meira. 
Smyrjið tvö 22/24 cm lausbotna form og bakið við 175° í um 20 mín.

Kremið: 
Sjóðið smör og púðursykur saman í potti við miðlungshita (í 8 mín segir í uppskriftinni). Hellið rjómanum út í og látið sjóða í 1 mín (þetta á að vera bullandi). Takið af hellunni og látið aðeins kólna. Setjið karamelluna í hrærivél og bætið flóryskri við þangað til kremið fer að kólna. Bætið svo mjúka smjörinu út í að lokum og hrærið vel. 

Smyrjið kreminu á kökuna þegar hún er búin að kólna og etið með bestu lyst!
(Mér fannst kakan svo tómleg, mig langaði að skreyta hana aðeins þannig að ég henti í pott einu mars súkkulaðistykki, nokkrum bitum af hreinu Nóa rjómasúkkulaði og smá rjóma og bræddi þetta saman yfir vægum htia og hellti yfir kökuna. Gerði mjög mikið fyrir kökuna fannst mér)

No comments: