Tuesday, October 22, 2013

New Orleans, Louisiana - Krókódílar og kakkalakkar

Við vorum afar spennt fyrir komu okkar til New Orleans. Seint um kvöld mættum við á gistiheimili sem var sennilega undarlegasti staðurinn sem við gistum á í ferðinni. Um var að ræða stórt hús í miðju íbúðarhverfi þar sem 2-3 hús í bakgarðinum voru líka nýtt sem gistiaðstaða. Það mætti segja að þetta hafi verið eins og kommúna. Þarna var ungt fólk frá öllum heimshornum og mikið djamm í gangi.

Stoppið var stutt en við náðum að sjá slatta af borginni. Um morguninn var kominn tími til að skila bílaleigubílnum okkar en þá brast á þetta líka svakalega þrumuveður. Rosalegri rigningu höfum við ekki séð en það tók okkur 30 mínútur að fara smá spöl upp á flugvöll þar sem allir keyrðu á 40-50 km hraða í rigningunni.

Við höfðum smá áhyggur þar sem við höfðum aðeins einn heilan dag í borginn en undir hádegi lagaðist veðrið. Við náðum því að skoða franska hverfið þar sem allir túristarnir halda sig. Á öðru hverju horni var gæsa- eða steggjapartý í gangi og satt best að segja var þetta djamm um miðjan dag frekar fráhrindandi. Minnti helst á svona Ibiza sólarstrandastemmningu.

Við yfirgáfum franska hverfið og héldum í leiðangur. Við römbuðum á skemmtilegt hverfi þar sem nóg var um að vera en meira af heimafólki virtist halda til þar.

Maturinn og drykkirnir voru frábærir í borginni en á veitingastað einum um kvöldið mættu óboðnir gestir í heimsókn. Þannig var mál með vexti að við hittum fyrir tilviljun tvo unga stráka á lestarstöð sem báðir voru frá Seattle og meirasegja í University of Washington, sama skóla og Valgerður var í. Við ákváðum að slást í för með þeim þar sem ætlunin var að finna alvöru djassklúbb. Við röltum með þeim félögum um Bourbon street og um franska hverfið og skyndilega langaði okkur að fá okkur snarl. Það virtist vera frábær hugmynd að setjast inn á búllu sem bauð upp á djúpsteiktan krókódíl. Við tókum fljótlega eftir því að risavaxnir kakkalakkar vildu ólmir komast inn til okkar þar sem við sátum við gluggann á staðnum. Innan skamms voru nokkrir þeirra komnir inn og minnkaði matarlystin við það til muna. Eins og Íslendingum sæmir þá kvörtuðum við en fengum einungis þau svör að við værum jú 200 metra frá fenjunum, „við hverju búist þið.“ Krókódíllinn var góður en þjónustan og staðurinn voru til skammar. Einn kakkalakkinn skreið meiraðsegja aðeins á fótlegg Eyþórs, en þó, þetta er fín ferðasaga.

Stemmningin í borginni var ólík flestu sem við höfum kynnst. Við náðum ekki að sjá gífurlega mikið en það hefði verið gaman að skoða fleiri staði þar sem allir ferðamennirnir eru ekki. Um leið og maður fór aðeins frá aðalgötunum og á meðal heimafólksins þá sá maður strax áhugavert fólk. Fyrst um sinn urðum við fyrir smá vonbrigðum með borgina en það verður þó að segjsat að það er erfitt að dæma heila borg á rúmum sólarhring. Svona eftir á að hyggja.
 Sturlað steggjapartý í gangi. Eyþór var þó sáttur við útganginn á þessum.
 Flippað í NOLA
 Eru þessar krukkur ekki komnar í tísku á Íslandi núna? Þær voru alls staðar.
 Þarna er aðeins fágaðara steggjarpartý í gangi.
Herbergið okkar. Koja og allt. Þess má geta að þegar Valgerður tók þessa mynd, stóð hún í hinum enda herbergisins, alveg í horninu. Það brakaði í gólfinu og til þess að vera alveg viss um að engin skordýrakvikindi kæmust inn, var handklæði troðið við þröskuldinn. Við vorum samt bara sátt að vera í herbergi með loftræstingu 
Seattle félagar okkar. Við sáum alvöru djazz með þeim en 2-3 lög voru nóg fyrir okkur.

Sunday, October 20, 2013

Frá Texas til Louisiana

Eftir gott sumarfrí ætlum við loksins að taka upp þráðinn hérna á blogginu. Við erum flutt til Berlínar en áður en við setjum inn myndir frá dvölinni okkar hér ætlum við að halda áfram með Bandaríkjaferðalagið okkar frá því í sumar. Hvert vorum við annars komin?

Síðasta vorum við í Austin, Texas en þaðan keyrðum við til Louisiana á rúmum 9 klst. Við stoppuðum tvisvar á leiðinni þann daginn. Fyrsta stopp var San Antonio í Texasfylki.

San Antonio er lítil borg sem er hvað þekktust fyrir NBA liðið sitt og Alamo virkið þar sem ein frægasta orusta í sögu Bandaríkjanna átti sér stað. Satt best að segja var byggingin og svæðið í kring ekki mikið fyrir augað en þetta er víst vinsæll ferðamannastaður. Við lásum okkur til um söguna, röltum aðeins um en fannst þetta ekkert voðalega merkilegt. 

Við stoppuðum stutt þar sem hitinn var nánast óbærilegur en við röltum þó meðfram ánni sem rann í gegnum borgina, en þar er fallegt um að litast, mikið af veitingastöðum og eflaust mikið líf þarna á kvöldin.

Eyþór hjá Alamo virkinu. Miðað við byggingar í Evrópu þá er þetta ekki merkilegur pappír.
Kötturinn C.C býr á Alamo safninu þar sem hann hjálpar reglulega til við dagleg störf.
San Antonio River walk. 

Við héldum áfram keyrslunni yfir Texas fylki þar sem lítið var að sjá meðfram þjóðveginum. Afskaplega mikið af engu. Planið var að vera komin til New Orleans, Louisiana seint um kvöldið en til að verðlauna okkur eftir keyrslu dagsins, ákváðum við að snæða á áhugaverðum veitingastað.

Nottoway Plantation er stærsta plantekrusetrið í Suðurríkjunum í dag en því hefur verið vel viðhaldið frá því það var byggt árið 1859. Þar er í dag hótel og veitingastaður en einnig er hægt að fara í skoðunarferð um svæðið. Staðurinn er vinsæll til veisluhalda en akkúrat þegar við mættum á svæðið var brúðkaup í gangi í bakgarðinum. 

Við höfum hvorugt séð jafn stórt og glæsilegt hús, þetta var svakalegt! Okkur fannst eins og við værum komin í bíómynd, þið getið ímyndað ykkur Django Unchained. Við fengum okkur að sjálfsögðu Suðurríkjamat eins og creole shrimp gumbo og grits. 

Eftir matinn skoðuðum við húsið og röltum um útisvæðið og ahh, andrúmsloftið var engu líkt. Gríðarlegur hitinn, hljóðið frá skordýrunum (crickets, sem við vitum ekki hvað er á íslensku) og stjörnubjartur himinn gerði upplifunina einstaka. Ég fæ alveg í magann að hugsa til baka... 
Lofthæðin er tæpir 5 metrar og hurðarnar eru rúmlega 3,30 metrar.

Seint um kvöld héldum við svo leið okkar áfram til New Orleans en að keyra í myrkri í Bandaríkjunum er ekkert djók... þvílíkur lúxus á Íslandi að hafa svona mikið af götuljósum!