Wednesday, November 27, 2013

Potsdam, Þýskaland

Við ætlum að setja smá pásu á færslur frá Ameríkuferðinni. Við eigum eftir að vinna slatta af myndum og svo eru fjölskyldur okkar farnar að biðja um myndir frá lífinu okkar hér í Þýskalandi. Okkur langar ótrúlega að halda blogginu gangandi á meðan við búum erlendis, en við höfum verið frekar and - og metnaðarlaus í myndatökum og myndavinnslu undanfarið. Bloggið verður því ekki uppfært jafn reglulega og áður en við munum þó reyna að setja inn myndirnar okkar hingað inn af og til. 

Þegar við ferðumst finnst okkur þó mikilvægt að taka myndavélina með og eiga skemmtilegar myndir til minningar. Við fórum síðasta laugardag í dagsferð til Potsdam sem er lítil borg rétt fyrir utan Berlín. Borgin er með fallegan miðbæ og allt öðruvísi stemning heldur en í stórborginni. Soldið túristaleg en afar krúttleg og flest hægt að sjá á nokkrum klukkustundum.

 Hollenska hverfið var ansi snorturt.
 Ef ég sé skilti sem stendur á GLÜHWEIN, þá er ég mætt. Ég elska þetta heita jólaglögg sem boðið er upp á á jólamörkuðum í þýskumælandi löndunum. Þarna var boðið upp á bláberja - og epla/kanil glühwein.
 Það var ekki þverfótað fyrir japönskum skólakrökkum.
 Hallargarður Sanssouci Schloss.

Friday, November 15, 2013

Picayune, Mississippi - bátsferð og byssuskot

Þá er komið að áhugaverðasta áfangastaðnum sem var heimsóttur en það var án nokkurs vafa smábær í  Missisippi fylki sem heitir Picayune. Þar búa um 10.000 manns. Við vorum stödd í New Orleans þegar við áttuðum okkur á því að fjölskylduvinur ætti heima skammt frá borginni. Eftir að hafa útvegað okkur símanúmer mannsins var ákveðið að slá á þráðinn. Ég get með sanni sagt að ég átti í mestu erfiðleikum með að skilja manninn, svo þykkur var suðurríkjahreimur hans. Hann bauð okkur velkomin og tjáði okkur að það væri minnsta mál að við myndum gista í nokkra daga.

Það var ekki ætlunin enda maðurinn nánast ókunnugur. Maður þessi heitir John Lee. Hann er fyrrum hermaður sem var búsettur á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvellinum í kringum 1970. Þar kynntist hann móðursystur minni og saman eignuðust þau son. Þau skildu eftir stutt hjónaband. Drengurinn ólst upp á Íslandi en John fluttist aftur til Bandaríkjanna. Ég hafði hitt manninn einu sinni eða tvisvar á Íslandi en ekki átt í neinum samræðum við hann af viti. Það reyndist satt það sem þeir segja um Suðurríkjagestrisni. Okkur var tekið opnum örmum á heimili John eins og við værum hluti af fjölskyldunni.

John elskar Ísland. Hann segist fullviss um að hann hafi verið þar í fyrra lífi. Hann fann tengingu við landið alveg frá því hann steig úr flugvélinni á Miðnesheiði sem táningur, þá nýlega kominn frá Víetnam. Í hans huga er Ísland himnaríki. Á heitum sumardegi í Missisippi eins og var þegar ferlangarnir bönkuðu upp á hjá honum, er auðvelt að skilja hvers vegna honum líkar við landið okkar.

John bauð okkur í bíltúr þar sem farið var yfir það svæði sem fellibylurinn Katrína lagði undir sig um árið. Enn má sjá merki um þessar miklu náttúruhamfarir sem riðu yfir svæðið. Yfirgefin hús og grunna af húsum má sjá víðs vegar og húsin sem hafa verið endurbyggð rísa nú hátt yfir jörðu á þar til gerðum stikum, ef flóð skildi skella á, sem gerist býsna oft.

Við Íslendingarnir spurðum John spjörunum úr enda forvitin um þennan stað sem var okkur svo framandi. John er  að mörgu leyti eins og maður myndi ímynda þér karlmann frá Suðurríkjunum. Hann er alltaf með derhúfu, yfirleitt í gallaskyrtu, keðjureykir og keyrir um á pallbíl. Hann ræktar líka melónur og maís á landskika sem fjölskylda hans á. Eins og hann heldur sjálfur fram þá er þó eitthvað íslenskt í honum. Hann er alinn upp af presti en er þó ekki ýkja trúaður (á Suðurríkjamælikvarða). Hann sækir þó kirkju enda er það stór hluti af samfélaginu í Missisippi. Þar er nánast kirkja á hverju götuhorni. Missisippi er að mörgu leyti eitt verst stadda fylki Bandaríkjanna.  Aðeins um 80% íbúa fulkisins ljúka High School. Fæðingar meðal unglingsstúlkna eru algengastar í Missisippi af öllum fylkjum Bandaríkjanna þar sem 55 af hverjum 1000 börnum eiga móður á aldrinum 15-19 ára. Landsmeðaltal er um 34 börn af hverjum 1000.

John sagði okkur frá mörgum af þeim vandamálum sem samfélagið glímir við. Í bænum hans, sem ekki var ýkja stór, var mikið um fíkniefnaneyslu, þá sérstaklega harðra efna eins og krakks og methamfetamíns. Mikil fátækt virtist vera á svæðinu og margir hafa lent í því að missa heimili sín þar sem fellibylurinn Katrína er ekki sá fyrsti sem hefur dunið yfir svæðið. Síðan eru leyfar af þrælahaldi og kynþáttahatri áberandi á svæðinu. 
Um 40% íbúa fylkisins eru blökkumenn. 

Við vorum forvitin að vita hvort John ætti ekki byssu eins og sannur Bandaríkjamaður. Það var og, John átti um 20-30 stykki sem hann geymir í risastórum peningaskáp á heimili sínu. Reyndar svaf hann með Magnum 45 skammbyssu á náttborðinu, en annars voru vopnin læst inni. Þegar við vöknuðum fyrsta morguninn var búið að sækja vel valin vopn og nú skildu víkingarnir fá að munda hólkana. Mér stóð hreint ekki á sama en var á sama tíma mjög spenntur. Við ókum á golfbílum á landareign John með honum og Lewis vini hans. Tveir rifflar með í för og tvær skammbyssur. Sama hvað hver segir þá viðurkenni ég fúslega að það var gaman og spennandi að skjóta úr byssunum. Samt var ég stressaður þegar Valgerður var að handleikar byssurnar, hún á það til að vera klaufsk.

Náttúran á svæðinu er kannski ekki mikið fyrir augað, en framandi engu að síður. Flatlendi og tré og fenjar inn á milli. John bauð okkur í bátsferð á ánni Jourdan. Í tæplega 40 stiga hita var haldið í rúmlega þriggja tíma bátsferð alveg niður að Mexíkóflóa. Við fengum okkur sundsprett en einungis eftir að John sannfærði okkur um að krókudílar væru ekki á kreiki þar. Þeir væri annars staðar, neðar í ánni.

Eftir að hafa verið áður á Vesturströnd Bandaríkjanna, þá var það eins og að koma í aðra veröld þegar við lentum í suðrinu. Að þetta svæði skuli tilheyra sama landinu er hreint ótrúlegt. Upplifunin að fá heimamann til þess að sýna okkur hlutina og heimsækja staði sem líklega fáir ferðamenn láta sér detta í hug að heimsækja, var alveg hreint kyngimögnuð.

John á maísakrinum sínum. Skoðar uppskeruna.
Hörkutól á ferðinni.
Mér var tjáð að ég væri efnileg skytta. Held mig frekar við körfuboltann.
Steiktan kjúkling og við erum komin með máltíð.
Þarna leið mér eins og smástráki, skemmtileg upplifun.
Valgerður er vúú stelpa.
Okkur stóð ekki alveg á sama þegar við stungum okkur til sunds.
Útsýnið úr bátnum var áhugavert.

Tuesday, October 22, 2013

New Orleans, Louisiana - Krókódílar og kakkalakkar

Við vorum afar spennt fyrir komu okkar til New Orleans. Seint um kvöld mættum við á gistiheimili sem var sennilega undarlegasti staðurinn sem við gistum á í ferðinni. Um var að ræða stórt hús í miðju íbúðarhverfi þar sem 2-3 hús í bakgarðinum voru líka nýtt sem gistiaðstaða. Það mætti segja að þetta hafi verið eins og kommúna. Þarna var ungt fólk frá öllum heimshornum og mikið djamm í gangi.

Stoppið var stutt en við náðum að sjá slatta af borginni. Um morguninn var kominn tími til að skila bílaleigubílnum okkar en þá brast á þetta líka svakalega þrumuveður. Rosalegri rigningu höfum við ekki séð en það tók okkur 30 mínútur að fara smá spöl upp á flugvöll þar sem allir keyrðu á 40-50 km hraða í rigningunni.

Við höfðum smá áhyggur þar sem við höfðum aðeins einn heilan dag í borginn en undir hádegi lagaðist veðrið. Við náðum því að skoða franska hverfið þar sem allir túristarnir halda sig. Á öðru hverju horni var gæsa- eða steggjapartý í gangi og satt best að segja var þetta djamm um miðjan dag frekar fráhrindandi. Minnti helst á svona Ibiza sólarstrandastemmningu.

Við yfirgáfum franska hverfið og héldum í leiðangur. Við römbuðum á skemmtilegt hverfi þar sem nóg var um að vera en meira af heimafólki virtist halda til þar.

Maturinn og drykkirnir voru frábærir í borginni en á veitingastað einum um kvöldið mættu óboðnir gestir í heimsókn. Þannig var mál með vexti að við hittum fyrir tilviljun tvo unga stráka á lestarstöð sem báðir voru frá Seattle og meirasegja í University of Washington, sama skóla og Valgerður var í. Við ákváðum að slást í för með þeim þar sem ætlunin var að finna alvöru djassklúbb. Við röltum með þeim félögum um Bourbon street og um franska hverfið og skyndilega langaði okkur að fá okkur snarl. Það virtist vera frábær hugmynd að setjast inn á búllu sem bauð upp á djúpsteiktan krókódíl. Við tókum fljótlega eftir því að risavaxnir kakkalakkar vildu ólmir komast inn til okkar þar sem við sátum við gluggann á staðnum. Innan skamms voru nokkrir þeirra komnir inn og minnkaði matarlystin við það til muna. Eins og Íslendingum sæmir þá kvörtuðum við en fengum einungis þau svör að við værum jú 200 metra frá fenjunum, „við hverju búist þið.“ Krókódíllinn var góður en þjónustan og staðurinn voru til skammar. Einn kakkalakkinn skreið meiraðsegja aðeins á fótlegg Eyþórs, en þó, þetta er fín ferðasaga.

Stemmningin í borginni var ólík flestu sem við höfum kynnst. Við náðum ekki að sjá gífurlega mikið en það hefði verið gaman að skoða fleiri staði þar sem allir ferðamennirnir eru ekki. Um leið og maður fór aðeins frá aðalgötunum og á meðal heimafólksins þá sá maður strax áhugavert fólk. Fyrst um sinn urðum við fyrir smá vonbrigðum með borgina en það verður þó að segjsat að það er erfitt að dæma heila borg á rúmum sólarhring. Svona eftir á að hyggja.
 Sturlað steggjapartý í gangi. Eyþór var þó sáttur við útganginn á þessum.
 Flippað í NOLA
 Eru þessar krukkur ekki komnar í tísku á Íslandi núna? Þær voru alls staðar.
 Þarna er aðeins fágaðara steggjarpartý í gangi.
Herbergið okkar. Koja og allt. Þess má geta að þegar Valgerður tók þessa mynd, stóð hún í hinum enda herbergisins, alveg í horninu. Það brakaði í gólfinu og til þess að vera alveg viss um að engin skordýrakvikindi kæmust inn, var handklæði troðið við þröskuldinn. Við vorum samt bara sátt að vera í herbergi með loftræstingu 
Seattle félagar okkar. Við sáum alvöru djazz með þeim en 2-3 lög voru nóg fyrir okkur.

Sunday, October 20, 2013

Frá Texas til Louisiana

Eftir gott sumarfrí ætlum við loksins að taka upp þráðinn hérna á blogginu. Við erum flutt til Berlínar en áður en við setjum inn myndir frá dvölinni okkar hér ætlum við að halda áfram með Bandaríkjaferðalagið okkar frá því í sumar. Hvert vorum við annars komin?

Síðasta vorum við í Austin, Texas en þaðan keyrðum við til Louisiana á rúmum 9 klst. Við stoppuðum tvisvar á leiðinni þann daginn. Fyrsta stopp var San Antonio í Texasfylki.

San Antonio er lítil borg sem er hvað þekktust fyrir NBA liðið sitt og Alamo virkið þar sem ein frægasta orusta í sögu Bandaríkjanna átti sér stað. Satt best að segja var byggingin og svæðið í kring ekki mikið fyrir augað en þetta er víst vinsæll ferðamannastaður. Við lásum okkur til um söguna, röltum aðeins um en fannst þetta ekkert voðalega merkilegt. 

Við stoppuðum stutt þar sem hitinn var nánast óbærilegur en við röltum þó meðfram ánni sem rann í gegnum borgina, en þar er fallegt um að litast, mikið af veitingastöðum og eflaust mikið líf þarna á kvöldin.

Eyþór hjá Alamo virkinu. Miðað við byggingar í Evrópu þá er þetta ekki merkilegur pappír.
Kötturinn C.C býr á Alamo safninu þar sem hann hjálpar reglulega til við dagleg störf.
San Antonio River walk. 

Við héldum áfram keyrslunni yfir Texas fylki þar sem lítið var að sjá meðfram þjóðveginum. Afskaplega mikið af engu. Planið var að vera komin til New Orleans, Louisiana seint um kvöldið en til að verðlauna okkur eftir keyrslu dagsins, ákváðum við að snæða á áhugaverðum veitingastað.

Nottoway Plantation er stærsta plantekrusetrið í Suðurríkjunum í dag en því hefur verið vel viðhaldið frá því það var byggt árið 1859. Þar er í dag hótel og veitingastaður en einnig er hægt að fara í skoðunarferð um svæðið. Staðurinn er vinsæll til veisluhalda en akkúrat þegar við mættum á svæðið var brúðkaup í gangi í bakgarðinum. 

Við höfum hvorugt séð jafn stórt og glæsilegt hús, þetta var svakalegt! Okkur fannst eins og við værum komin í bíómynd, þið getið ímyndað ykkur Django Unchained. Við fengum okkur að sjálfsögðu Suðurríkjamat eins og creole shrimp gumbo og grits. 

Eftir matinn skoðuðum við húsið og röltum um útisvæðið og ahh, andrúmsloftið var engu líkt. Gríðarlegur hitinn, hljóðið frá skordýrunum (crickets, sem við vitum ekki hvað er á íslensku) og stjörnubjartur himinn gerði upplifunina einstaka. Ég fæ alveg í magann að hugsa til baka... 
Lofthæðin er tæpir 5 metrar og hurðarnar eru rúmlega 3,30 metrar.

Seint um kvöld héldum við svo leið okkar áfram til New Orleans en að keyra í myrkri í Bandaríkjunum er ekkert djók... þvílíkur lúxus á Íslandi að hafa svona mikið af götuljósum!

Thursday, July 11, 2013

Austin seinni dagur

Seinni daginn byrjuðum við aftur í hverfinu okkar, í þetta sinn með cupcake og mjólk í hjólhýsinu á horninu í morgunmat. Við röltum síðan meira um hverfið og skoðuðum litlu búðirnar. Við keyrðum svo í háskólahverfið og fórum í uppáhalds búðina okkar Buffalo Exchange sem er í nokkrum stórborgum hér í Ameríku. Við reyndum síðan að rölta um miðbæinn en það var erfitt í steikjandi hitanum þannig að næst á dagskrá var að fá sér pulsu og drykk hjá Frank en bæði matur og drykkur slógu í gegn hjá okkur.

Við héldum göngu okkar áfram og eftir að Eyþór hafði óvart fengið sér Chili frostpinna hjá götusalanum sem talaði enga ensku duttum við inn á kaffihús þar sem við fengum besta ískaffið í ferðinni þar sem eigandinn býr til sína eina mjólk sem er svolítið sæt..sem þýðir að ég gat loksins fengið mér kaffi ÁN sýróps!! ;) Þar hittum við ungan dreng sem var nýbúinn að útskrifast úr high school sem vissi helling um stjórnmálaástandið á Íslandi og að Ísland hafi nýlega dregið ESB umsókn sína til baka (sem er í sjálfu sér mjög áhugavert þar sem eiginlega enginn hérna úti veit hvað European Union er..).

Við leituðum að næsta áfangastað með loftkælingu og ákváðum að skoða þinghús Texas fylkis sem er staðsett í miðbæ Austin. Þinghúsið er mjög flott að innan og stútfullt af (frekar sorglegri) sögu. Meðal þingmanna eru þó ekki bara redneck Texas lið eins og margir ímynda sér en við hittum eflaust mesta töffaraþingmanninn, Wendy Davis sem tveimur dögum áður hafði staðið í 11 klst og talað gegn lagafrumvarpi án þess að borða né fara á klósettið. Allt til þess að vernda réttindi kvenna í Texas (nánari lýsing á því hvernig við enduðum á því að hitta þingkonuna hér fyrir neðan..)
Þinghúsið í Texas.
Mjög fallegt inni í byggingunni.
Gaurarnir sem tóku þessa mynd sögðu okkur að annar þeirra væri í pólitík og hefði þess vegna fengið að fara og hitta stjórnmálakonuna Wendy Davis sem hafði nýlega verið í fréttum vegna hetjulegrar framkomu í þinginu þegar Repúblikanar voru að reyna að koma lögum í gegn sem myndu hefta aðgang kvenna að fóstureyðingum. Við hugsuðum með okkur hvað það væri gaman að hitta hana líka..

Og það gerðum við :) Við leituðum af skrifstofunni hennar sem var vel falin og aðstoðarmaður hennar kom fram og byrjaði að spjalla við okkur. Hann sagði þingkonuna vera í viðtali við People Magazine þannig að við gætum ekki hitt hana. Svo þegar við vorum á leiðinni út kemur Wendy út úr skrifstofunni og kallar í okkur og við áttum létt spjall.
Ég gat ekki komist hjá því að leiða hugann að öllum þeim fáránlegu lögum sem hafa komist í gegnum þetta þing en Texas fylki hefur verið talið verulega afturhaldsamt.

Þar sem við sitjum hér á síðasta degi ferðalagsins og hugsum til baka þá var Austin eiginlega skemmtilegasta borgin sem við heimsóttum. Fólkið var fáránlega næs, ég er eiginlega enn að jafna mig á því hvað ALLIR (meirasegja hipsterarnir en Austin er talin vera ein mesta hipsteraborgin í Ameríku) voru rosalega vinalegir og til í að spjalla. Borgin er líka frekar lítil og alls ekki túristaleg. Við vorum líka mjög heppin með matinn sem við fengum í Austin, allar máltíðir voru ótrúlega góðar og staðirnir skemmtilegir. 
Semsagt, við mælum með því að heimsækja Austin!