Monday, January 27, 2014

Og þá kom snjórinn..


Við vorum farin að halda að við slyppum við veturinn, en hingað til hefur veðrið hér í Berlín verið fáránlega gott og enginn vetur til að tala um. Þangað til núna í síðustu viku en þá byrjaði að snjóa og frostið fór niður í -10 gráður eða svo. Ég verð að segja að borgin er mun fallegri sveipuð þessari hvítu hulu heldur en í grámyglunni sem einkennir Berlínarveturinn. Veðrið gefur okkur líka tækifæri á því að klæðast öllum þeim hlýja, íslenska fatnaði sem við tróðum í ferðatöskurnar og fengum í jólagjöf. 

Við tókum rölt um hverfið okkar um daginn en við búum semsagt í Prenzlauer Berg. Í hverju hverfi eru svo til óopinber heiti á minni svæðum hverfanna, en þýska orðið er Kiez (eða "hood" eins og ég vil kalla það). Við búum í Kollwitzkiez og erum afar ánægð með þetta litla hverfi okkar, enda hefur það mikið upp á að bjóða. 

 Gatan við hliðina á okkar er ein af mínum uppáhalds. Frá henni má sjá glitta í Sjónvarpsturninn og einnig gamla Vatnsturninn. Þar eru eru líka tvö af allra uppáhalds kaffihúsunum okkar í borginni.
Með tófú sem keypt var á markaðnum.
Fyrstu vikuna í janúar sátum við fjölskyldan hér úti og borðuðum morgunmat.
 Í götunni okkar er stór trjádrumbur þar sem búið er að gera hólf fyrir bækur. Þarna fá gamlar bækur nýtt heimili.
Ennþá má sjá jólatré á gangstéttum.
 Við enduðum göngutúrinn á uppáhalds kaffihúsinu okkar, No Fire No Glory.
 Kaffibollinn er fullkominn og ástralska hermannakakan er ótrúlega góð líka, en ég gerði einmitt svona kökur ansi oft á Grettisgötunni þegar ég var að taka mín fyrstu skref í eldhúsinu (með hjálp Café Sigrúnar).
Að sjálfsögðu var hundur á kaffihúsinu, það bregst ekki hér í Berlín.

Sunday, January 19, 2014

Helgarferð til Dresden

Við fórum í æðislega helgarferð til Dresden í byrjun desember en þar tóku á móti okkur yndislegu gestgjafarnir, þau Sædís og Chaman. Þau eru þar í háskólanámi, aðeins um 2 klst. frá Berlín í virkilega fallegri fyrrum Austur-þýskri borg. Við náðum að sjá og gera helling, skoðuðum fallega gamla miðbæinn en kíktum líka í nýja og meira "hip" hverfið þar sem unga fólkið heldur sig. Við borðuðum svakalega góðan mat, amerískan veislu brunch að hætti Sædísar og svo hefðbundinn arabískan kvöldverð að hætti Chaman. Við skoðuðum túristastaðina, fengum okkur glühwein á jólamörkuðunum, kynntum okkur sögu borgarinnar á borgarsafninu og kíktum í second hand búðir. Næturlífið var ansi skemmtilegt en Chaman og Sædís fóru með okkur á shisha-bar þar sem við reyktum ávaxtatóbak úr vatnspípu undir arabískum tónum. Því næst var haldið á suðrænan dans-kjallara þar sem Sædís kenndi mér undirstöðuatriðin í salsadansi. Inn á milli höfðum við það notalegt í kósý íbúðinni í gamla bænum þar sem Sædís og Chaman hafa komið sér vel fyrir. 

Við mælum hiklaust með heimsókn til Dresden, en borgin minnir um margt á Vínarborg með öllum fallegu gömlu byggingunum sem allar voru endurreistar í gömlum stíl eftir stríðið. Í gegnum borgina rennur áin Elbe og útsýnið hinu megin við brýrnar er virkilega fallegt. 
 Alvöru brunch að hætti Sædísar sló í gegn eftir hressandi föstudagskvöld.
 Ein af tveimur byggingum í miðbæ Dresden sem ekki urðu fyrir barðinu á sprengjum Bandamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Byggingin hýsir heilsutryggingafyrirtæki í dag og er ská á móti húsi Sædísar og Chaman.
Í bakgarði Zwinger Palace
Sædís og Chaman í gamla bænum
Arabískur kvöldverður þar sem (næstum) allt var gert alveg frá grunni af Sædísi og Chaman (meira að segja falafel!)
Jólamarkaðurinn í miðbæ Dresden laðar að sér fjöldan allan af ferðamönnum.
Við Eyþór kíktum út í brunch á sunnudeginum.
Sunnudeginum eyddum við Eyþór í borgarsafni Dresden
Leifar af sprengju sem var ein af mörgum sem lagði Dresden í rúst í Seinni heimstyrjöldinni.
Erich Honecker, fyrrum leiðtogi Austur-Þýskalands fær það óþvegið.

Eftir að hafa skoðað myndirnar langar mig helst aftur í heimsókn til Dresden, en það gæti verið að frábæru gestgjafarnir okkar hafi eitthvað með það að gera.. Ég hugsa nú samt að ég verði að sjá þessa fallegu borg líka í sumarbúningi :)

Monday, January 6, 2014

Gropiusstadt, Berlín

Halló halló og gleðilegt nýtt ár!
Ég ætla ekki að fara mikið út í árið 2013 en það var eitt það besta sem við höfum upplifað að ég held. Við byrjuðum árið á Íslandi, fluttum svo til uppáhalds borgarinnar minnar, Seattle þar sem ég fékk langþráðan draum uppfylltan - að stunda nám við University of Washington. Við eyddum vorönn í borginni þar sem við bjuggum hjá yndislegu fólki og eyddum að sjálfsögðu miklum tíma með amerísku (fóstur)fjölskyldunni minni sem ég bjó hjá þegar ég var 17-18 ára. Það var mikið ferðast á árinu en auk þess að fara í stuttar ferðir til Vancouver, Oregon fylkis og til ýmissa staða í Washington fylki fórum við í 3ja vikna roadtrip (með nokkrum flugferðum að vísu) frá Seattle til New York, með viðkomu í Suðurríkjunum og í Mið-vestrinu. Fyrir nokkrum árum setti ég mér markmið að fara í road-trip um einhvern hluta Bandaríkjanna á næstu árum og er gaman að geta krossað það af listanum, þó að okkur langi nú helst bara strax aftur og þá að skoða önnur fylki. 

Við dvöldum á Íslandi í 2 mánuði í sumar og þar náðum við nokkrum bústaðarferðum á milli þess sem við unnum. Því næst fluttum við til Berlínar þar sem við verðum fram á sumar en hér mun ég eyða síðasta námsárinu mínu. Berlín hefur farið vel í okkur, ég er ánægð í skólanum og við búum í stórri íbúð í æðislegu hverfi. Nú þegar höfum við farið til tveggja þýskra borga, til Potsdam og Dresden og stefnum við á að ferðast meira um Þýskaland þegar tekur að vora. 

Nýafstaðin jólahátíð var ein sú besta sem ég hef upplifað en við vorum svo heppin að geta eytt henni með báðum fjölskyldum okkar, án þess að fara til Íslands. Við eyddum jólunum í Dublin með fjölskyldunni hans Eyþórs og svo komu foreldrar mínir og litli bróðir (sem er ekki svo lítill lengur..) til okkar eftir jól og voru yfir áramót. Það er því frekar tómlegt hér í dag og smá erfitt að venjast hversdagsleikanum aftur eftir yndislegar samverustundir með fólkinu okkar. 

En þetta átti alls ekki að vera svona langur pistill. Nýársheitið er að vera duglegri að blogga, svona mest til þess að amma mín hætti að kvarta yfir myndaleysi ;)
Myndirnar hér að neðan eru teknar fyrr í haust en þá fórum við í heimsókn til Gropiusstadt.

Gropiusstadt er stórt blokkarhverfi sem var byggt um 1960 í gömlu Vestur-Berlín til þess að mæta auknum fólksfjölda í borginni og að bæta skort á húsnæði eftir stríðið. Úr varð risastórt steypuhverfi, aðallega með félagslegum íbúðum fyrir lágstéttarfólk. Mig hafði langað að heimsækja hverfið allt frá því að ég las Dýragarðsbörnin fyrir nokkrum árum. Bókin segir sanna sögu Christiane F. sem ólst einmitt upp í Gropiusstadt og var orðinn heróínfíkill og vændiskona 13 ára gömul. Christiane lýsir hálf ömurlegum uppeldisaðstæðum sínum í bókinni og talar einnig um hversu niðurdrepandi það var að alast upp í hverfinu.

Hverfið er þó mun skárra í dag en er samt enn eitt fátækasta hverfi borgarinnar. Þar sem amma Cerruh býr er umhverfið rólegt og aðallega eldra fólk sem býr í hennar blokk. Þetta er engan veginn eins og að labba í gegnum amerískt "project", það er allt frekar snyrtilegt og íbúðirnar eru alveg ágætar. Við fengum að fara upp á 27. hæð í hæstu blokkinni og útsýnið var mjög skemmtilegt. 


Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira um Gropiusstadt, geta kíkt hér, á eina af uppáhalds síðunum mínum. Annars mæli ég líka með bókinni Dýragarðsbörnin.

Wednesday, November 27, 2013

Potsdam, Þýskaland

Við ætlum að setja smá pásu á færslur frá Ameríkuferðinni. Við eigum eftir að vinna slatta af myndum og svo eru fjölskyldur okkar farnar að biðja um myndir frá lífinu okkar hér í Þýskalandi. Okkur langar ótrúlega að halda blogginu gangandi á meðan við búum erlendis, en við höfum verið frekar and - og metnaðarlaus í myndatökum og myndavinnslu undanfarið. Bloggið verður því ekki uppfært jafn reglulega og áður en við munum þó reyna að setja inn myndirnar okkar hingað inn af og til. 

Þegar við ferðumst finnst okkur þó mikilvægt að taka myndavélina með og eiga skemmtilegar myndir til minningar. Við fórum síðasta laugardag í dagsferð til Potsdam sem er lítil borg rétt fyrir utan Berlín. Borgin er með fallegan miðbæ og allt öðruvísi stemning heldur en í stórborginni. Soldið túristaleg en afar krúttleg og flest hægt að sjá á nokkrum klukkustundum.

 Hollenska hverfið var ansi snorturt.
 Ef ég sé skilti sem stendur á GLÜHWEIN, þá er ég mætt. Ég elska þetta heita jólaglögg sem boðið er upp á á jólamörkuðum í þýskumælandi löndunum. Þarna var boðið upp á bláberja - og epla/kanil glühwein.
 Það var ekki þverfótað fyrir japönskum skólakrökkum.
 Hallargarður Sanssouci Schloss.