Thursday, January 31, 2013

Random símamyndir

Eins og ég hef nú þegar tekið fram hér hef ég verið afar léleg á myndavélinni en hér eru random símamyndir frá undanförnum mánuði.

Ég bakaði kúrbítsbrauð. Mér fannst það æði og borðaði það í morgunmat á hverjum morgni í svona viku og fékk aldrei leið á því! Mjög svo seðjandi og í hollari kantinum, viljiði uppskrift? :)


Ótrúlegir hlutir gerast. Við fórum á kaffihúsadeit...í Njarðvík!


Ólöf Hera vann mig í Jóakim Aðalönd spilinu.


Uppáhalds "smá"kakan (akkúrat ekkert smátt við þessa köku) mín og chai latte. Mæli með þessari súkkulaðibitaköku á Glætunni bókakaffi á Laugaveginum.


Svo hressandi að taka í kústinn á morgnana og renna honum yfir bílinn.. eins og maður sé ekki nógu duglegur að drulla sér í ræktina kl.10 á laugardagsmorgni (jebb, fyrsta ræktarmontið á þessu bloggi.. þau verða ekki fleiri, lofa!)

Amma mín með tískuna á hreinu, í rauðum blúndubol með svart loð um hálsinn (hún er sennilega ansi hneyksluð á öllum þessum matarmyndum í þessari færslu...hún skilur ekkert í því hvað fólk er alltaf að taka mynd af matnum sínum - "ertu alltaf borðandi krakki!??")


Guðdómlegar íslenskar pönnukökur með nutella og rjóma á Cafe París.


Við Ólöf Hera fórum út að leika í snjónum.




Tuesday, January 29, 2013

Bústaðarferð í Bjarkahlíð

Ég var heima hjá foreldrum mínum um helgina að passa litla bróður og ákvað að taka tölvuna ekki með. Það var ekkert smá notalegt að eyða öllum laugardeginum uppí rúmi með latte, kleinuhring með öllu og héðinsbollum úr Sigurjónsbakarí ásamt því að lesa helgarblöðin og tímaritin sem mamma er áskrifandi að. Smá tilbreyting frá öllum blogglestrinum sem ég á það til í að detta í! (er jafnvel að spá í að deila með ykkur nokkrum af uppáhalds bloggunum mínum á næstunni..)

Annars hef ég verið frekar löt að taka upp myndavélina en iphone-myndir verða að duga þessa dagana. 

Við vinkonurnar fórum uppí bústað fyrir nokkrum helgum og það var auðvitað yndislegt eins og alltaf. Við elduðum speltpizzu, vígðum nýja flotta fondúpottinn hennar Ellenar og slúðruðum fram á nótt með hvítvín í hönd. Þetta er það sem ég sakna hvað mest þegar ég bý í útlöndum og því er ég alveg að sjúga í mig allar þær vinkonustundir sem eru í boði á meðan ég er á landinu :)

Ekkert svo mikið étið þessa helgi..

Friday, January 18, 2013

Dagur í Bath

Vitiði.. ég sakna Bath. 
Ég bjóst ekki við því.. þó að borgin sjálf hafi verið yndisleg þá er hún lítil og maður átti það til að fá leið á að sjá sömu staðina aftur og aftur. Þrír mánuðir fannst mér fullkominn tími til að búa þarna en á þessum tímapunkti í lífi mínu þrái ég stórborgir! Enda mun árið 2013 held ég ekki valda vonbrigðum þar sem við munum búa bæði í Seattle og Berlín á þessu ári. 

En aftur að Bath.
Í dag snjóaði þar í fyrsta skipti í vetur almennilega og twitterið mitt er fullt af myndum af borginni í snjó. Mér finnst borgir svo fallegar í snjó og var hundfúl að fá ekki að upplifa Bath í snjó á meðan dvöl minni stóð. Myndirnar voru verulega fallegar og lét mig sakna borgarinnar. 
Annars var soldið fyndið að fá email frá háskólanum í morgun um að öllum prófum yrði frestað í dag og einnig sá ég á twittersíðu borgarinnar að fullt af fyrirtækjum og búðum voru að loka fyrr svo starfsmennirnir kæmust nú heim fyrir kvöldmat (búist við að það tæki alllangan tíma til að keyra á sumardekkjunum í snjónum...). 

Þar sem ég á eitthvað af myndum sem við Eyþór tókum rétt áður en hann fór heim, m.a. af Roman Baths sem er aðaltúristastaðurinn í borginni, langar mig að halda aðeins áfram að deila myndum frá borginni þar sem ég efast um að þið hafið gaman af myndum héðan af gamla kanavellinum þar sem ég bý núna tímabundið.

Þennan daginn röltum við um miðborgina eins og svo oft áður..


 Við byrjuðum á að rölta út hálfa þessa götu til að stytta okkur leið niðrí bæ. Húsið okkar er á horni þessarar götu (sést ekki á myndinni) og miðbærinn er bara einni götu frá.

Þetta er eiginlega aðal "æð" miðborgarinnar. Til vinstri má sjá innganginn að aðaltorgi borginnar. 

Miðborgin skartaði þessari fallegu hringekju yfir jólatímann.

Dúfurnar voru æstar í þennan.
...og þessi drengur fékk líka að finna fyrir þeim.

Þessi var afar hress, tók myndavélina af mér og þóttist vera að stela henni áður en hann stakk eldinum uppí sig!

Hrifning og aðdáun áhorfendanna leyndi sér ekki..

Fórum á uppáhalds lunch staðinn minn, Whole Bagel og fengum okkur "festive" beyglu með kalkún, trönuberjasósu og ruccola.



P.s. Eins og þið sjáið prófaði ég að setja lista með vinsælum færslum hér til vinstri og það kemur mér ekkert voðalega mikið á óvart að karamellukökur eru í fyrsta og öðru sæti. Helstu leitarorðin sem fólk slær inn á google og endar í kjölfarið á þessari síðu eru matartengdar...

Thursday, January 17, 2013

Kúrbítsklattar

Ég er að spá í að byrja aftur að deila uppskriftum eins og ég gerði áður en flutti til Englands. Þar bjó ég í stúdentaíbúð með mjög takmörkuðum eldhúsáhöldum sem gerði það að verkum að áhugi minn til þess að stússast í eldhúsinu var sama sem enginn. Það eina sem ég eldaði voru grænmetispottréttir, fahitas og pastaréttir. Við átum því miður frekar mikið af tilbúnum réttum eins og súpu, asískum frosna rétti úr Iceland á tvö pund (hversu sorglegt.. haha, þetta var samt alveg alltílagi). Ég reyni sem mest að borða mat sem ég geri sjálf frá grunni en stundum hreinlega nennir maður ekki að standa í því. Úti var ég eiginlega alltaf lærandi og þegar ég tók mér pásur þá fórum við frekar út á kaffihús, í göngutúra osfv þar sem ég hafði ekki löngun til þess að hanga í þessu litla eldhúsi þar sem ég átti einn pott og eiginlega ekkert annað.

Núna hinsvegar hefur allt róast þar sem ég er í tveggja mánaða pásu og er á Íslandi með fullt af eldhústækjum og bý með fólki sem vill helst bara hollan mat. Ég er því ansi glöð með að hafa svona mikinn tíma til þess að geta dundað mér í eldhúsinu með tengdamömmu :) 

Ég setti inn mynd á instagram af útkomunni af kúrbítsæði mínu en í vikunni gerði ég tvær uppskriftir úr bók sem ég náði mér í á bókasafninu sem heitir Hollt nesti heiman að. Alltaf þegar ég er nýbúin í lokaprófum/lokaritgerðum þá fer ég alltaf beint á bókasafnið til að taka bækur til að lesa fyrir mig sjálfa (svo ánægð að þurfa ekki að lesa fyrir skólann) og svo næ ég mér oftast í matreiðslubækur og/eða nokkur eintök af gömlum Gestgjöfum. 

Allavega, þá voru nokkrar vinkonur sem vildu fá uppskriftina af kúrbítsklöttum sem ég gerði í vikunni. Ég ætlaði nú ekkert að deila þessari uppskrift og tók bara eina símamynd af matardisknum mínum en svo vorum við öll svo ánægð með klattana að ég mæli hiklaust með þeim.

Kúrbítsklattar
úr bókinni Hollt nesti heiman að

1 kúrbítur 
2 skallottulaukar
5-6 msk heilhveiti/spelt
1 egg
50-60gr rifinn ostur
1-2 msk smátt söxuð steinselja (átti þetta ekki til og notaði bara ýmis krydd sem ég átti, mæli með Kryddi lífsins m.a.)
salt&pipar

Rífið kúrbítinn með grófu rifjárni (ég notaði samskonar rifjárn og ég nota þegar ég ríf niður ost) og setjið í sigti yfir skál ásamt 2 tsk af salti til að draga úr honum vökvann. Leyfið þessu að liggja í a.m.k. 2-3 klst. Kreistið því næst eins mikið af vökvanum og hægt er úr kúrbítnum. Blandið egginu, ostinum og kryddinu saman í skál. Bætið kúrbítnum útí og loks speltinu. Það gæti þurft aðeins meira eða minna af spelti, fer eftir því hversu mikill vökvi er eftir í kúrbítnum. Hitið olíu á pönnu og setjið deigið á með skeið. Úr uppskriftinni fáið þið um 8-10 klatta. 




Við vorum með ofnsteikt grænmeti með og kaldar sósur en í bókinni er mælt með tzatziki sósu (að sjálfsögðu var fengið sér 2x á diskinn.. :)

Monday, January 14, 2013

Jólafrí 2012-2013

Jólafríið á Íslandi var auðvitað virkilega næs þrátt fyrir að ég hafi verið að vinna í tveimur stórum ritgerðum á meðan (sem ég skilaði fyrir helgi, jeijj!). Ég er enn á landinu og verð hér þangað til í mars (önnin byrjar svo seint) en þá verður bloggið eflaust mun meira spennandi.. 

Við tókum ekki mikið af myndum í jólafríinu en Eyþór smellti nokkrum myndum af göngutúrnum sem við fórum í á jóladag. Við kíktum með tengdó í Sandvík og keyrðum um Reykjanesið.

Við vorum ósköp róleg á gamlárs.. vorum með fondú sem er alltaf jafn skemmtilegt og svo var jafnvel fengið sér einn Pimms eða svo þrátt fyrir að Bretar myndu missa andlitið ef þeir fréttu að við værum að drekka þennan sumardrykk um miðjan vetur (svona var viðhorfið þegar ég pantaði mér drykkinn stundum í Bath fyrr í haust). Það var frekar gaman að fylgjast með flugeldaæði Reykjanesbæjar frá Reykjanesbrautinni en síðan var farið og knúsað báðar fjölskyldurnar okkar þegar nokkrar mínútur voru búnar af 2013 (soldið hentugt á áramótunum að fjölskyldan mín og tengdafjölskylda mágkonu minnar skuli búa hlið við hlið :)













(Ofurgóða súkkulaðikakan með karamellu-pipp kremi að photo-bomba myndina sem Pimms drykkirnir eru að reyna pósa fyrir...)


Nú er semsagt haustönnin mín og ritgerðarbrjálæðið formlega búið og í kjölfarið koma fleiri blogg.. (og reyndar líka ný vinna, nýtt ræktarnámskeið.. jájá segir sú sem setur sér aldrei áramótaheit ;)

Sunday, January 6, 2013

Afsakið hlé

Hæ!
Og gleðilegt ár og allt það..
Það er eiginlega eins og prófatörn hjá mér þessa dagana, er á fullu að vinna í tveimur ágætlega stórum ritgerðum sem ég á að skila næstkomandi föstudag til háskólans í Bath. Sem þýðir að allt jólafríið hefur einkennst af ritgerðaskrifum..eða þá samviskubiti að vera gera eitthvað annað þegar ég á að vera læra.

 

 

Svona líta dagarnir mínir út.. bókasafn, myrkur, leiðindaveður ... og latte. Að vísu næ ég ekki að gera alveg jafn gott og flott og uppáhalds kaffið mitt á kaffihúsinu mínu í Bath (sem myndirnar eru af, svo gott þegar froðan er "stinn"!) en ég læt mig hafa það. Bara 5 dagar eftir og þá er ég frjáls! Þá verð á dugleg hér.. á slatta af myndum í pokahorninu :)