Monday, January 27, 2014

Og þá kom snjórinn..


Við vorum farin að halda að við slyppum við veturinn, en hingað til hefur veðrið hér í Berlín verið fáránlega gott og enginn vetur til að tala um. Þangað til núna í síðustu viku en þá byrjaði að snjóa og frostið fór niður í -10 gráður eða svo. Ég verð að segja að borgin er mun fallegri sveipuð þessari hvítu hulu heldur en í grámyglunni sem einkennir Berlínarveturinn. Veðrið gefur okkur líka tækifæri á því að klæðast öllum þeim hlýja, íslenska fatnaði sem við tróðum í ferðatöskurnar og fengum í jólagjöf. 

Við tókum rölt um hverfið okkar um daginn en við búum semsagt í Prenzlauer Berg. Í hverju hverfi eru svo til óopinber heiti á minni svæðum hverfanna, en þýska orðið er Kiez (eða "hood" eins og ég vil kalla það). Við búum í Kollwitzkiez og erum afar ánægð með þetta litla hverfi okkar, enda hefur það mikið upp á að bjóða. 

 Gatan við hliðina á okkar er ein af mínum uppáhalds. Frá henni má sjá glitta í Sjónvarpsturninn og einnig gamla Vatnsturninn. Þar eru eru líka tvö af allra uppáhalds kaffihúsunum okkar í borginni.
Með tófú sem keypt var á markaðnum.
Fyrstu vikuna í janúar sátum við fjölskyldan hér úti og borðuðum morgunmat.
 Í götunni okkar er stór trjádrumbur þar sem búið er að gera hólf fyrir bækur. Þarna fá gamlar bækur nýtt heimili.
Ennþá má sjá jólatré á gangstéttum.
 Við enduðum göngutúrinn á uppáhalds kaffihúsinu okkar, No Fire No Glory.
 Kaffibollinn er fullkominn og ástralska hermannakakan er ótrúlega góð líka, en ég gerði einmitt svona kökur ansi oft á Grettisgötunni þegar ég var að taka mín fyrstu skref í eldhúsinu (með hjálp Café Sigrúnar).
Að sjálfsögðu var hundur á kaffihúsinu, það bregst ekki hér í Berlín.

3 comments:

Anonymous said...

Oh en huggulegt! Hér í Búdapest er einmitt sama uppi á teningnum. Aðeins farið að kólna síðustu daga og allir bíða spenntir eftir snjónum (sérstaklega litlu suðrænu skólafélagarnir sem hafa ekki séð hann áður).
Kv, Gugga

Anonymous said...

Flott! :) Hlakka til að koma (þó að snjórinn megi vera farinn þá) :)
-Sæunn

Valgerður said...

æj já það er svo miklu meira kósý með snjóinn í borginni, sérstaklega þar sem það er akkúrat enginn vindur :)

hehe já Sæunn, það verður vonandi komið sumarveður þegar þið komið!